151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

fjarskipti.

[13:12]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað talsvert ólíku saman að jafna, ástandinu í Mjanmar og ýmsum öðrum löndum og svo því sem við erum að reyna að tryggja hér. Ég er sammála hv. þingmanni að fjarskipti og aðgangurinn að internetinu og öll samskipti, bæði einstaklinga og fyrirtækja, séu orðin miklu víðtækari. Fjarskiptin standa undir starfsemi þeirra og bara eðlilegum samskiptum. Það er hins vegar þannig að við sem herlaus þjóð höfum kannski frekar haft áhyggjur af því að hingað kæmu aðilar sem myndu beita þessum tækjum okkar til þess að dreifa áróðri sínum og loka fyrir annað og þá er nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að geta brugðist við og varist slíkri ógn að utan. Ég held að ég og hv. þingmaður hljótum að deila þeirri skoðun að við þurfum ekki að óttast að það gerist innan frá eins og í herveldinu Mjanmar sem hefur ítrekað tekið völdin af lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum. Ég lít svo á að við séum með þessum ákvæðum að tryggja stöðu okkar gagnvart ytri ógn. Skilgreiningu á ófriðartímum, hvað það er, held ég að væri ágætt að þingnefndin myndi leggjast svolítið yfir og skilgreina í greinargerð þannig að menn óttist ekki að það sé tæki þarna fyrir einhver undarleg stjórnvöld framtíðarinnar að beita. Ég óttast það ekki. Ég lít miklu frekar svo á að þetta sé varnartæki fyrir okkur gagnvart utanaðkomandi ógn og þannig gætum við komið í veg fyrir einhliða áróður eða misnotkun slíkra aðila á þessum fjarskiptum okkar gegn okkur.