151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

staða drengja í skólakerfinu.

[13:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar fyrirspurnar hvort fjármunir fylgi þessari stefnu — já, svo sannarlega. Við erum að setja hundruð milljóna í það að bæta stöðuna núna. Við höfum farið í mjög nákvæma greiningu á því hvernig við getum bætt stöðuna. Bæði erum við búin að verja fjármunum og svo erum við líka að ráðast í beinar aðgerðir, eins og ég nefndi áðan. Við erum í verkefni í Fellaskóla, við erum að leggja fjármuni inn á sveitarstjórnarstigið, við höfum verið að leggja hundruð milljóna í það að efla kennaramenntun í landinu. Þetta mun allt skila þannig árangri að við munum sjá að staðan verður orðin mun betri. Við erum líka að tala um mælingar sem áttu sér stað fyrir nokkrum árum. Þegar þetta er komið allt til framkvæmda verður íslenska menntakerfið í fremstu röð og þar hugum við að jöfnum tækifærum fyrir öll börn.