151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[14:01]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði. Á þessari þingsályktunartillögu erum við, gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir lok ársins 2021 þess efnis að staðgreiðsla skatta fari fram við innborgun í lífeyrissjóð en ekki við útgreiðslu lífeyrissparnaðar. Tryggt verði að þeim fjármunum sem breytingin skilar ríkissjóði verði varið í þágu aukinnar velferðar.“

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að þetta mál var áður lagt fram á 150. löggjafarþingi, mál nr. 25, en náði ekki fram að ganga, þó að ég skilji það nú bara engan veginn, það hljóta allir að vera mjög hissa á því. Tillagan er nú endurflutt óbreytt.

Á síðustu árum hafa eignir lífeyrissjóðanna stóraukist og námu um 5.200 milljörðum kr. við lok árs 2019, samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands. Inngreiðslur í samtryggingarsjóði nema yfir 200 milljörðum kr. á ári hverju. Árið 2000 námu eignir lífeyrissjóðanna um 80% af vergri landsframleiðslu en árið 2017 var hlutfallið komið í 157% samkvæmt hagtölum lífeyrissjóða sem birtast á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, lífeyrismál.is. Það er áhyggjuefni hve mikil umsvif lífeyrissjóðanna eru í íslensku viðskiptalífi. Stjórnir þeirra eru skipaðar fulltrúum verkalýðsfélaga og atvinnulífsins sem skipa síðan stjórnarmenn til að sitja fyrir hönd sjóðanna í stjórnum fyrirtækja sem sjóðirnir eiga hlut í. Þannig eru tengslin á milli eigenda fjármagnsins, sjóðfélaga, og þeirra sem annast fjárreiður lífeyrissjóða lítil sem engin. Útkoman er sú að stór hluti íslenskra fyrirtækja er í eigu óvirkra aðila sem starfa samkvæmt lögbundinni ávöxtunarkröfu en ekki vilja sjóðfélaganna sjálfra.

Undanfarin ár hafa lífeyrissjóðir sætt gagnrýni fyrir að fjárfesta í áhættusömum fyrirtækjum, greiða stjórnarmönnum ofurlaun og styðja viðskipti sem sjóðfélögum blöskrar hreinlega. Með því að greiða skatta af iðgjöldum við innlögn í lífeyrissjóði má sporna gegn því að lífeyrissjóðir verði óeðlilega stórir miðað við stærð hagkerfisins. Fjármuni skortir til að ráðast í nauðsynlegar úrbætur á íslenska velferðarkerfinu. Heilbrigðiskerfið stendur á brauðfótum, bætur almannatrygginga duga ekki til framfærslu og bilið milli hinna ríku og hinna fátæku eykst ár frá ári. Því er nauðsynlegt að auka tekjur ríkissjóðs og nýta þær í þágu fólksins. Skattlagning við innlögn í lífeyrissjóð í stað útgreiðslu er sársaukalaus leið til að stórauka tekjur ríkissjóðs og gerir honum kleift að styrkja velferðarkerfið án þess að skerða ráðstöfunartekjur almennings.

Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi eru iðgjöld í lífeyrissjóði og mótframlög vinnuveitenda ekki skattlögð. Þess í stað eru greiðslur úr lífeyrissjóðum til lífeyrisþega skattlagðar. Þegar við erum fersk og fullfrísk og vinnandi er tekinn af okkur lögþvingaður lífeyrissparnaður og sumir leggja í séreignarsparnað og annað slíkt, en enginn skattur er greiddur. Ef við verðum hins vegar svo ólánsöm einhvern tímann á miðri lífsleiðinni að lenda í áföllum, lenda í slysum og þurfum að nýta okkur lífeyrisréttindin vegna veikinda, nú ellegar þegar við erum komin á efri ár og förum að taka út þennan svokallaða lífeyrissparnað, þá er hann skattlagður. Hann er skattlagður þegar við þyrftum í rauninni enn þá frekar á því að halda, annaðhvort vegna örorku og sjúkleika eða vegna öldrunar, að geta fengið greiðslu úr lífeyrissjóðnum óskipta án skattlagningar.

Mig langar að taka smásnúning á þessari ágætu greinargerð okkar um innborgunina í lífeyrissjóðinn, skattlagningu strax við upphaf á innborgun, og tala um hvernig ástandið er í samfélaginu í dag. Ég veit ekki hvort hugtakið Covid-19 hefur einhvern tímann verið nefnt hér í þessu ræðupúlti, svo ég sé pínulítið háðsk, vegna þess að við höfum verið undirlögð af þessum heimsfaraldri í heilt ár, algerlega undirlögð. Talað er um að jafnvel eftir fjögur ár verði skuldir ríkissjóðs farnar að slaga hátt í 2.000 milljarða kr. Núna erum við t.d. að safna skuldum og öðru slíku upp á tæpa 600 milljarða 2020 og 2021 þegar verið er að reyna að bregðast við því efnahagshruni sem á sér stað í samfélaginu.

Og nú kemur rúsínan í pylsuendanum, virðulegi forseti. Við erum að fara að selja hlut í Íslandsbanka, allt að 35% eignarhlut okkar í Íslandsbanka, fyrirtæki sem ekkert segir og engin rök mæla með því að selja. Engin rök. Þau rök sem lögð hafa verið fram, og eiga að styrkja þær stoðir að það sé algerlega það besta fyrir okkur að selja bankann, eru bara algerlega reist á brauðfótum. Það er engin áhætta fólgin í því akkúrat núna að við höldum áfram að taka arð út úr okkar sameiginlegu bönkum, ekki nein. Það er ekkert sem segir að það sé einhver samþjöppun á markaði og við myndum fá meira frelsi á markaði ef við seldum hlut okkar í Íslandsbanka, enda hefur þjóðin talað og meiri hluti þjóðarinnar er algjörlega andvígur því að selja bankann.

Ein aðalrökin eru þau að okkur vanti fjármagn og talið er að við gætum fengið allt að 35 milljarða kr. fyrir sölu á þessum eignarhlut okkar í Íslandsbanka og þeir 35 milljarðar séu afskaplega mikilvægir inn í hagkerfið, inn í ríkissjóð akkúrat núna þegar við erum að berjast í bökkum vegna þess hruns sem við höfum þurft að horfast í augu við vegna Covid-faraldursins, heimsfaraldurs — tökum eftir; heimsfaraldurs. Við það að skattleggja lífeyrissjóðina núna við innborgun fáum við hátt í 80 milljarða kr. á ári.

Virðulegur forseti. Gerum við okkur grein fyrir því hver fjárhæðin er í hverjum einasta mánuði sem lífeyrissjóðirnir þurfa nauðsynlega að fjárfesta fyrir? Tæpir 18 milljarðar kr. Þeir þurfa að fjárfesta fyrir tæpa 18 milljarða kr. Lífeyrissjóðirnir okkar eiga orðið yfir 40% af öllum skráðum félögum, 40% af eignarhlutanum í Kauphöllinni, hvorki meira né minna. Og þegar verið er að tala um sölu á Íslandsbanka er líka talað um að sennilega hafi nú fæstir tök á því að hafa þessa fjármuni til þess að kaupa eignarhlut okkar í bankanum nema ef vera skyldi lífeyrissjóðirnir. Enn einu sinni lífeyrissjóðirnir, sem eiga stóran hlut í Arion banka; lífeyrissjóðirnir, sem væru þá komnir hringinn í kringum borðið. Þeir eru líka í lánaviðskiptum út úr sínum sjóðum til eigenda sinna, sjóðfélaga, og í þessu tilviki eru það þeir sem geta hugsanlega fjárfest í eign okkar í Íslandsbanka. Við skulum ekki gleyma því að ekki hefur gefist neinn tími til að markaðssetja þessa sölu erlendis til þess að athuga hvort við gætum fengið einhverja erlenda aðila frekar að rekstrinum, því að flýtirinn er svo gríðarlegur að selja eignarhlut okkar í bankanum.

Virðulegi forseti. Fyrst ég er nú að tapa mér í bankamálunum þá virðist vera sama hverjir það eru sem eiga þessa banka. Þeir eru alltaf til í að hámarka hagnaðinn og okra á viðskiptavinum. Það er ekki flóknara en það. Það skiptir engu einasta máli þótt stýrivextir Seðlabankans séu 0,75%. Það skiptir ekki einu einasta máli, t.d. eru óverðtryggðir vextir úr lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna 4,5%. Og við skulum ekki gleyma því að ávöxtunarkrafa sjóðanna er 3,5%, hvorki meira né minna.

En ætla ég að snúa mér aftur aðeins að greinargerðinni, sem ég þarf kannski ekki að vísa svo mikið meira til því að þetta talar nokkuð fyrir sig sjálft. Við erum að tala um að ávöxtun lífeyrissjóðanna sé ekki áhættulaus, eins og við vitum, sérstaklega ekki þegar þeir sitja uppi með þá kröfu sem á þá er lögð. Borið hefur við að lífeyrissjóðir hafi skilað tapi og þeir fá náttúrlega skell eins og flestir aðrir, eins og þegar við gengum í gegnum efnahagshrunið 2008. Þá töpuðu þeir sennilega ríflega 600 milljörðum kr. á ýmsum misviturlegum fjárfestingum.

Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að ríkissjóður sæki skatttekjurnar í upphafi og geti því ráðstafað þeim á eigin forsendum í stað þess að treysta lífeyrissjóðunum til að ávaxta allt þetta fé. Það þýðir ekki á nokkurn hátt, eins og andstæðingar þessarar þingsályktunartillögu hafa gjarnan sagt, að verið sé að skerða réttindi lífeyrisþeganna og endi með því að ef staðgreiðslan er tekin við innborgun strax í upphafi þá myndu sjóðirnir bara tæmast og ekkert yrði eftir. Þetta myndi bara að verða bara til tómra vandræða þegar kæmi að því að þurfa að greiða eigandanum út lífeyri. Þetta er eiginlega það mesta bull sem ég hef nokkurn tíma heyrt því að það heldur áfram að streyma inn í sjóðinn á þriðja hundrað milljarða kr. á hverju einasta ári og við erum einungis að tala um að við fáum að nýta það og sleppa þessari undanþágureglu sem lífeyrissjóðirnir eru með, sem er almenna meginreglan um að við séum með staðgreiðslu hér í skattkerfinu, staðgreiðslu strax við útborguð laun. Það myndi gilda það sama þegar lífeyrissjóðirnir fá fjármuni frá eigendum sínum, þá væri staðgreitt við innlögn.

Það er í rauninni ástæða til og mjög athyglisvert að velta því upp hvort ekki ætti að gera öfluga könnun á meðal sjóðfélaganna sjálfra til þess að fá fram í beinu lýðræði í þeim hópi hvernig þeim sjálfum líst á það að láta taka staðgreiðslu af sér strax við innborgun í sjóðina í stað þess að greiða skattana við útborgun. Það væri verulega áhugavert, vegna þess að með þessum 70–80 milljörðum kr., sem við myndum fá inn í ríkissjóð á hverju einasta ári við að taka þessa staðgreiðslu við innborgun í sjóðinn strax í upphafi, getið þið ímyndað ykkur hvað hægt væri að gera í sambandi við lágmarkslaun skatta- og skerðingarlaust upp í t.d. 350.000 kr. Við gætum gefið þeim tugþúsundum Íslendinga sem hokra hér tækifæri, þótt ekki væri nema öryggi um fæði, klæði og húsnæði.

Það er alltaf verið að tala um hvernig við getum forgangsraðað fjármunum. Við höfum svo sannarlega séð það núna á þessu kjörtímabili hvernig forgangsröðun fjármuna hefur verið. En það er líka mikið ákall eftir fjármagni í ríkissjóð. Við höfum orðið af gríðarlegum tekjum vegna aukins áfalls í hagkerfinu, úti í samfélaginu, vegna atvinnuleysis, fyrirtækin okkar ströggla og við vitum að efnahagskerfið okkar gengur varla á hraða snigilsins, það silast áfram verulega hægt, en er sem betur fer ekki alveg stopp. Okkur vantar fjármuni í ríkissjóð. Þetta er ein aðferðin.

Ég ætla líka að benda á það, svona til þess að taka af allan vafa um það að þegar þessu kerfi var komið á í kringum 1969 stóð aldrei nokkurn tímann til að þeir sem greiddu skatta þá og væru búnir að greiða sína skatta yrðu tvískattaðir. Það kemur aldrei til. Þessi lög verða að taka gildi frá þeim degi sem þau eru sett. Þau virka ekki íþyngjandi afturvirkt frekar en nokkur önnur löggjöf, því að það er hreint og klárt lögbrot, samanber málið sem Flokkur fólksins vann fyrir hönd eldri borgara þegar við sóttum fyrir þeirra hönd tæpa 7 milljarða kr. með vöxtum þegar brotin höfðu verið á þeim lög.