151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:13]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla að gera enn eina tilraunina til að vekja athygli þingheims á því að það er ekki nóg að segja að nýsköpunarumhverfið sé gott á Íslandi til þess að það sé það. Það eru fjölmargar hindranir í vegi allra sem vilja reka fyrirtæki á Íslandi. Þar á meðal má nefna þungt regluverk sem kemur m.a. fram í ágætri skýrslu um samkeppnishæfni Íslands frá OECD. En það er líka lítið stuðningsumhverfi. Verið er að hola Nýsköpunarmiðstöð Íslands út og óljóst nákvæmlega með hvaða hætti eitthvað mun koma í staðinn. Við erum ekki þátttakendur í öllu því alþjóðlega samstarfi sem okkur býðst að vera aðilar að til að eiga sem mest tækifæri fyrir okkar litlu og meðalstóru fyrirtæki, svo eitthvað sé nefnt. Það má einmitt nefna Geimvísindastofnun Evrópu, sem Alþingi hefur samþykkt tillögu um að við eigum að ganga í, og þó erum við að öllum þessum árum liðnum ekki enn orðin aðilar að henni.

Samfélagið sjálft er að auki ekki mjög gírað í að styðja við framþróun verkefna. Miklum auðlindum og tækifærum er oft sóað, stundum af þeirri ástæðu einni að forsvarsmenn hugmyndanna tilheyra ekki réttum flokkum. Það eru svo mörg dæmi um þetta. Eitt dæmi um auðlind sem við erum að sóa er heita vatnið, rosalega mikið af heitu vatni rennur frá bæjum úti um allt land og beint í sjóinn, jafnvel 75 lítrar á sekúndu, og í Breiðholti rennur 30°C heitt vatn út í sjóinn án þess að það sé nýtt. Þarna er auðlind sem við erum að sóa. Ef við viljum vera það þekkingar- og nýsköpunarsamfélag sem við segjumst alltaf vilja vera þá verðum við að fara kerfisbundið í það að ryðja öllum óþörfum hindrunum úr vegi og byggja upp raunhæft stuðningsnet fyrir fyrirtæki landsins og fyrir alla þá sem eru með góðar hugmyndir.