151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[13:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég er að gleðja hv. þingmann eða valda henni vonbrigðum þegar ég fullyrði að enginn ágreiningur hafi, mér vitandi, verið í ríkisstjórn eða milli stjórnarflokkanna þegar kemur að þessu máli, ekki einn einasti, enda er byggt á vinnu sem hefur staðið yfir allt frá árinu 2017 eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Þar er ég að vitna til skýrslu starfshóps sem skilaði af sér 2018, þar sem lögð er til þessi afmörkun. Þar er talað um 10–15% sem ég hygg að verið sé að gera tillögu um hér á eftir að verði. Síðan er stóra skýrslan, hvítbókin um framtíðarsýn. Frumvarpið byggist á tillögum þeirra sérfræðinga sem þar unnu mjög merkt og gott starf. Það þekkir hv. þingmaður ágætlega, enda voru fulltrúar þessara hópa meðal gesta sem komu fyrir nefndina.

Ég vil undirstrika að þegar við erum að setja svona reglur sem eru takmarkandi verðum við líka að viðurkenna að það kann að hafa aðrar afleiðingar, svo sem að draga úr stærðarhagkvæmni viðskiptabankanna, að þjónusta þeirra verði dýrari og þjónustuframboð þeirra verði fábreyttara. Það eru hinar neikvæðu afleiðingar sem reglur af þessu tagi hafa. Síðan er það þessi séríslenska regla sem við erum að leggja til og ég er sammála um að gera — þótt ég hafi ákveðnar efasemdir um það skil ég af hverju verið er að gera þetta. Ég hygg að það sé skynsamlegt við núverandi aðstæður en menn verða þá líka að viðurkenna að svona séríslensk regla kann að draga úr áhuga erlendra fjárfesta þegar kemur að því (Forseti hringir.) að taka ákvörðun um að fjárfesta í íslensku fjármálakerfi sem ég hélt að væri eftirsóknarvert fyrir okkur Íslendinga.