151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég kom hér upp í andsvar vegna þess að ég tel mikilvægt fyrir umræðuna að draga þetta fram. Það er raunverulega þetta sem við höfum verið að kljást við, löggjafinn, alla vega eftir því sem ég les best skýrslur, hvítbók og afar góða skýrslu frá starfshópi fjármála- og efnahagsráðherra þar á undan þar sem vegnar eru og metnar þær leiðir sem eru færar. Það er augljóst í því samhengi hversu bankar á Íslandi eru litlir þótt kerfislega mikilvægir séu og getur verið áhættusamt ef við höfum regluverkið ekki í lagi eins og við þekkjum. Það er mikilvægt, um leið og við setjum svona takmarkandi löggjöf, að gera það ekki þannig að það raski núverandi starfsemi þeirra og hlutverki á markaði. Það getur komið niður á möguleikum þeirra til að vinna úr, eins og hv. þingmaður fór yfir, fullnustueignum og veita gagnlega þjónustu á borð við viðskiptavakt. Þar skiptir máli að fjármálamarkaðurinn sé sem virkastur. Þess vegna met ég það skynsamlega leið og bannleiðina nánast ófæra í samhengi þessa litla markaðar og hlutverks bankanna. Hér er vísað í áhættu af fjármálagerningi eða hrávöru og það er svolítið sérstakt í lagagrein að sjá skilgreininguna „sambærileg því að hann ætti hana sjálfur“ — var eitthvað rætt í nefndinni að undanþiggja aðra gerninga að þessu leyti?