151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég þori að fullyrða að svo hafi ekki verið, svo að ég svari hv. þingmanni beint. Menn voru ekki mikið að fara yfir það hvort hugsanlega væru það einhverjir aðrir fjármálagjörningar sem ættu að falla hér undir. Auðvitað hljóta menn að velta því fyrir sér, ef þetta frumvarp verður að lögum, þegar fer að reyna á það og menn fara að vinna eftir því.

Fyrir utan það sem ég vék að hér áðan erum við líklegast á krossgötum eða tímamótum þegar kemur að alþjóðlegri fjármálastarfsemi. Við sem einstaklingar og eigendur fyrirtækja hér á Íslandi verðum miklu óháðari landamærum. Stærstu fyrirtækin á Íslandi eru kannski ekki jafn háð íslensku bankakerfi, vegna þess að þau geta leitað til annarra banka, en litlu og meðalstóru fyrirtækin eru það. En það er allt saman að breytast og ég held að hugmyndir okkar um bankastarfsemi eigi eftir að kollvarpast á tiltölulega fáum árum.

Ég ætla líka að benda á og ítreka það að þegar menn taka ákvörðun um að setja svona kvaðir, takmörk, á starfsemi banka eins og hér er lagt til þá verða menn líka að átta sig á öðrum afleiðingum en þeim sem ég hef nefnt hér áður, þ.e. að hluti af hinni hefðbundnu bankastarfsemi mun færast annað, færast yfir í það sem við höfum kallað skuggabankastarfsemi sem sætir ekki jafn ríku eftirliti og venjuleg eða hefðbundin bankastarfsemi. Þar af leiðandi kunna svona kvaðir að leiða til þess, ef gengið er of langt, að kerfisleg áhætta hér í fjármálakerfinu sé í raun meiri en við gerum okkur nokkurn tíma grein fyrir vegna þess að hún er falin.