151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Nei, auðvitað eigum við ekki að þurfa að rífast en ég get komið hingað upp og hafnað því að hér sé um sýndarmennsku að ræða. Mér finnst líka lítið gert úr mati og skýrslugjöf sérfræðinga sem hafa unnið mjög góða vinnu og undirbyggt það frumvarp sem liggur fyrir. Hér erum við sannarlega að bregðast við því sem menn hafa verið að rembast við í áratug. Það er þó verið að stíga skref til þess og það er virðingarvert. Þó að það hljómi að einhverju leyti ankannalega í þessu andsvari þá styð ég það að við tökum á þessu máli, að við reisum einhverjar varnarlínur. Við megum heldur ekki gleyma því í þessari umræðu, að Fjármálaeftirlitið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki og hefur þegar í dag heimild til að fylgjast með þessu.

Af því að ég kem inn á þá fínu vinnu sem liggur hér að baki ætla ég að fá að vísa í þessa góðu skýrslu sem kemur frá starfshópnum, frá mjög góðum sérfræðingum sem eru nefndir fremst í skýrslunni. Hér segir, með leyfi forseta:

„Aðskilnaði fylgir óhjákvæmilega verulegur kostnaður. Eftir hrun hafa verið endurreistir þróttmiklir heimamiðaðir bankar sem hafa alla burði til að þjóna atvinnulífi og heimilum í landinu. Það er mat nefndarinnar að þær breytingar sem gerðar hafa verið á regluverki banka eða eru í farvatninu séu nægjanlegar og að óbreyttu séu ekki nægilegar sterkar forsendur fyrir skipulagsbreytingum að erlendri fyrirmynd.“

Það er alveg rétt. Menn hafa farið þessa leið með aðskilnað í Bretlandi og í Bandaríkjunum, en menn eru líka að stíga skref til baka þar vegna þess að það eru flóknir þættir í þessu. Það eru ekki fullkomin skil á milli þess sem heitir viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi og það gerir það flókið að fara í þennan aðskilnað.