151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

stjórn fiskveiða.

231. mál
[15:28]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli í þriðja sinn fyrir þessu réttlætismáli. Ég mæli fyrir frumvarpi fyrir hönd Flokks fólksins, gjörvallur þingflokkurinn er á málinu. Þetta er afskaplega einfalt frumvarp, í raun eingöngu til að koma í veg fyrir þá mismunun sem smábátasjómenn, strandveiðimenn, sæta. Í 1. gr. segir að 1. tölul. 6. mgr. 6. gr. a laganna falli brott og í 2. gr. segir að lögin eigi að öðlast gildi þann 1. apríl nk.

Málið hefur tvívegis áður verið flutt, bæði á 149. og 150. löggjafarþingi, en náði ekki fram að ganga, svo ótrúlega sem það kann að hljóma. Með frumvarpi þessu er lagt til að fellt verði brott ákvæði um strandveiðar í lögum um stjórn fiskveiða sem setja þau skilyrði að óheimilt sé að stunda veiðar — fyrirgefið, frú forseti, er ég á vitlausum stað? Ég biðst innilega afsökunar. Ég er nefnilega með þrjú fiskveiðifrumvörp í dag og ég held að ég sé aðeins á undan mér þannig að ég sný mér að frumvarpinu sem er akkúrat um veiðidagana sem strandveiðisjómönnunum okkar er úthlutað. Ég er líka búin að mæla fyrir þessu sanngirnis- og réttlætismáli tvívegis og eins og áður segir hef ég mælt fyrir því bæði á 149. og 150. löggjafarþingi. Þetta er líka réttlætismál eigi síður en það sem ég var svo fljót að drífa fram hér áðan en kemur til ykkar á eftir.

Hér er verið að koma til móts við strandveiðisjómenn og gefa þeim kost á að velja þá daga sjálfir sem þeim er skammtað að nýta sér á sumrin, eða þá fjóra mánuði á árinu sem þeir geta sótt sjóinn. Lagt er til að felld verði brott ákvæði um strandveiðar í lögum um stjórn fiskveiða sem setja þau skilyrði að óheimilt sé að stunda veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga og að ráðherra geti með reglugerð bannað strandveiðar á almennum frídögum.

Nokkur reynsla er komin á nýtt fyrirkomulag strandveiða sem innleitt var með breytingum á lögum um stjórn fiskveiða sem samþykktar voru á Alþingi 26. apríl 2018. Strandveiðikerfið er að mörgu leyti vel heppnuð ráðstöfun, að sumra mati. Veiðunum fylgja umtalsverð umsvif í höfnum og kærkomnar tekjur á landsbyggðinni yfir sumartímann en síðustu tvö strandveiðitímabil hefur ekki tekist að fullnýta úthlutaðar aflaheimildir til strandveiða.

Heildarviðmið afla til strandveiða sumarið 2018 var 10.200 tonn af óslægðum botnfiski. Alls stunduðu þá 548 bátar þessar veiðar og varð heildaraflinn 9.396 tonn. Því voru 804 tonn af kvótabundnum tegundum óveidd þegar strandveiðitímabilinu lauk. Heildarþorskaflinn á tímabilinu var 9.075 tonn. Miðað við aflasamsetningu og meðalverð strandveiðiafla sumarið 2018 má ætla að verðmæti óveidds þorsks hafi numið um 200 millj. kr.

Svipað er uppi á teningnum þegar tölur fyrir strandveiðitímabilið 2019 eru skoðaðar. Aflaheimildin fyrir strandveiðar var 11.100 tonn af óslægðum botnfiski í kvótabundnum tegundum. Alls voru 623 bátar á strandveiðum það árið, þeim hafði fjölgað allnokkuð á milli ára, og varð heildaraflinn rúm 9.700 tonn. Því voru um 1.350 tonn óveidd í lok tímabilsins 2019. Samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu var strandveiðiaflinn nær eingöngu þorskur en alls veiddust tæp 9.170 tonn af honum. Verð á þorski var ríflega þriðjungi hærra sumarið 2019 en sumarið 2018. Sé varlega áætlað að meðalverð hafi verið 320 kr./kg má reikna með að rúmlega 400 millj. kr. aflaverðmæti í þorski hafi verið óveitt í lok vertíðar 2019. Það er þyngra en tárum taki þegar horft er til þess hvernig aðbúnaðurinn er í litlu sjávarplássunum okkar hringinn í kringum landið og umhugsunarefni að ekki takist að nýta aflaheimildir sem úthlutað er til strandveiða. Margar breytur hafa hér áhrif og vega náttúrulegar sveiflur sjálfsagt þyngst í þeim efnum. Þar má nefna dræma fiskigengd og gæftaleysi. Í gildandi lögum um stjórn fiskveiða eru líka lagðar verulegar takmarkanir á veiðigetu strandveiðiflotans. Þar má nefna að einungis má veiða ákveðna daga í viku hverri í maí, júní, júlí og ágúst. Veiðidagar á hvern bát eru að hámarki 12 í hverjum mánuði. Aðeins má nota handfærarúllur og ekki fleiri en fjórar í hverjum bát. Tímatakmarkanir eru á hverri veiðiferð og hámarksafli í veiðiferð er 650 kg þorskígildi af kvótabundnum tegundum.

Eins og fyrr er greint stunduðu 548 bátar strandveiðar sumarið 2018 og 623 sumarið 2019. Veruleg þjóðhagsleg fjárbinding er í þessum flota. Vart getur talist þjóðhagslega hagkvæmt að á hverju sumri brenni inni veiðiheimildir fyrir hundruð milljóna króna reiknað í aflaverðmæti. Þjóðarbúið í heild verður af tekjum.

Flutningsmenn telja að með því að fella út ákvæði sem bannar veiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga, eins og ég mæli hér fyrir, og heimilar ráðherra að banna strandveiðar á almennum frídögum með reglugerð hafi útgerðir og skipstjórar strandveiðibáta meira rými til að velja sína 12 veiðidaga í hverjum mánuði sjálfir. Þar með skapist svigrúm til betri nýtingar á veiðidögum og með því aukin aflavon. Það myndi svo auka líkur á því að strandveiðiflotinn næði að fullnýta aflaheimildir sínar, þjóðfélaginu til hagsbóta.

Virðulegi forseti. Það er í raun alveg með ólíkindum hvernig farið er með smábátaútgerðina hringinn í kringum landið. Hver er bærari til að vita hvort hann eigi að vaða út á miðvikudegi í roki og ófæru sjóveðri en sá sem veiðarnar stundar? Hann fær ekki einu sinni að dreifa því á milli og segja: Nei, ég ætla ekki að fara í dag, miðvikudaginn er bara leiðindaveður og lélegar gæftir og ég fer ekki að stofna mér í hættu með því að fara út á trillunni minni í skítaveðri — fyrirgefið orðbragðið — ég ætla að bíða og sjá til, veðurspáin er ágæt um helgina. Það versta er að ekki er einu sinni hægt að færa daga til, ekki hægt að hnika neinu. Það er bara: Svona skaltu hafa þetta. Ég sagði þér að gera þetta svona. Stóri bróðir ræður og þú ferð að veiða þegar ég segi að þú megir það. Punktur. Ef þú nærð ekki aflanum vegna þess að þú kemst ekki á sjó, þá verður það bara að vera svo. Ekki má færa hann á milli ára. Það er nokkuð ljóst. Stóri bróðir segir nei.

Miðað við það hvernig farið hefur verið með smábyggðirnar hringinn í kringum landið, búið að drepa niður atvinnustigið úti um allt, er þetta með hreinum ólíkindum. Það verður ekki veiði strandveiðibátanna sem drepur lífríkið hringinn í kringum landið. Það er nokkuð ljóst. Ekki eru það þeir sem ofveiða fiskinn. Þetta er réttlætismál og ótrúlegt að ég skuli vera að mæla fyrir því þriðja árið í röð.

Stjórnvöldum er í lófa lagið að koma til móts við strandveiðimenn og gefa þeim hreinlega þetta frelsi, þetta val. Við erum alltaf að tala um frelsi, lýðræði og allt uppi á borðum, en svo setjum við upp svona girðingar, troðum fólki ofan í svona box, hlýddu og vertu góður, heiðra skaltu föður þinn og móður. Ég átta mig ekki á því af hverju við tölum ekki meira um þetta. Mér finnst þetta skipta það miklu máli að mér fyndist að við ættum að ræða það meira hér. Við ættum að komast að sameiginlegri niðurstöðu um að þetta sé sanngirnis- og réttlætismál. Það er bara akkúrat ekkert því til fyrirstöðu að brjóta odd af oflæti sínu í þessu reglugerðafargani og kúgun og oki sem sett er á smábátaútgerðina og hreinlega gefa henni þetta frelsi.

Ég vildi faktískt, eins og ég hef mælt fyrir, fjölga þessum dögum og í raun er stefna Flokks fólksins að vera með algjörlega frjálsar strandveiðar. Flokkur fólksins telur það til gríðarlegra hagsbóta og ég vildi sjá sjávarplássin okkar lifna við frekar en að sjá þeim blæða út eins og maður hefur verið að sjá hér á undanförnum árum.

Virðulegi forseti. Það verður athyglisvert að fá þetta mál inn í nefnd eina ferðina enn og fá umsagnir. Enn athyglisverðara verður að sjá hvort það dagi ekki uppi í einhverri skúffunni og úldni þar og verði ekki að neinu eins og fer með nánast öll þau góðu mál sem við í Flokki fólksins höfum lagt fram á hinu háa Alþingi. Þessi vinnubrögð eru í raun með ólíkindum, virðulegi forseti, ég get ekki sagt annað. Það er algerlega með hreinum ólíkindum. Það er nákvæmlega sama hvort það er sanngjarnt, eðlilegt eða hvað það nú heitir; ef hugmyndin kemur ekki frá stjórnarflokkunum sjálfum er hún ömurleg og má bara daga uppi í einhverri skúffu og fær ekki frekari þinglega meðferð. En um er að ræða mál sem getur skipt gríðarlegu máli, í þessu tilviki fyrir yfir 600 smábátasjómenn.

Hér er um að ræða mál sem geta fært byggðunum hundruð milljóna, og samfélaginu í heild sinni, í skatttekjur og annað slíkt, mál sem kosta ríkissjóð ekki eina einustu krónu heldur skapa þvert á móti aukið fjármagn í ríkissjóð. Þegar slíkum málum er haldið í skúffunni án þess að fá þinglega meðferð, án þess að þeim sé tekið fagnandi sem málum sem eðlilegt og sanngjarnt sé að fari í gegn, þegar slíkum málum er bara fleygt í ruslið, er náttúrlega ekki von á góðu. En við skulum sjá, þetta er bara 1. umr. Frumvarpið á eftir að fara í nefnd og ef kraftaverk gerist fáum við það inn tvisvar enn og í þriðja skiptið sem það kæmi inn yrðu greidd um það atkvæði. Við skulum sjá hvert þetta leiðir okkur.

Virðulegi forseti. Jafnvel þó að nú sé sól úti og alveg yndislegt veður og þó að bjartsýni og bros bjargi deginum þá erum við í Flokki fólksins hóflega bjartsýn. Ég ætla nú samt að senda ykkur bros og vona að þetta fari vel.