151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

erlend lán ríkissjóðs.

[13:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í athugasemdum við fjáraukalög, plaggi ríkisstjórnarinnar, segir að skuldir ríkissjóðs hafi aukist um 45 milljarða, í hennar eigin plaggi, á síðasta ári vegna gengisbreytinga. Gengið hrundi um 13% á síðasta ári og enginn annar gjaldmiðill í Evrópu hefur rýrnað í líkingu við krónuna á þessum veirutíma. Það þýðir 45 milljarða í aukaskattlagningu á almenning og fyrirtæki. Þegar kreppan skall á lofaði Seðlabankinn að ríkissjóður hefði aðgang að innlendum lánum á viðráðanlegum kjörum. Það studdi Viðreisn. Hins vegar ákvað ríkisstjórnin að kúvenda og fara í erlenda lántöku upp á 600 milljarða. Kreppuhallinn er því fjármagnaður með erlendum lánum og mikilli gengisáhættu. Aðrar þjóðir forðast það við þessar aðstæður. Til að erlendar lántökur gangi upp þarf hagvöxtur að vera hærri en vextir og gengisáhætta. Þó að vextirnir séu 0 þá er ávöxtunarkrafan 1% eða u.þ.b., samhliða mikilli gengisáhættu og við höfum aldrei upplifað tímabil í íslenskri hagsögu sem hefur verið án gengisáhættu. Ég geng út frá því að þetta hafi verið rætt í þaula í ríkisstjórn. Ég geng jafnframt út frá því að áhættumat hafi verið gert og lagt fyrir ríkisstjórn og það áhættumat verði jafnframt lagt fyrir þingið. Ég geri ráð fyrir því að í því liggi mat á áhættu á erlendum lánum fyrir skattgreiðendur, fyrir heimilin og velferðarkerfið og að þar liggi einnig fyrir áhættan fyrir útflutningsatvinnugreinar okkar ef síðan á að nota gjaldeyrisvaraforðann til að halda genginu uppi.

Eftir hrun var sagt að það hefði verið eitraður kokteill að fólk sem fyrirtæki hafi tekið erlend lán en verið með tekjur í íslenskum krónum. Það leiddi m.a. til þess að Alþingi bannaði slíkt. En nú ákveður ríkissjóður að gera nákvæmlega þetta, að taka erlend lán en lætur skattgreiðendur sitja uppi með áhættuna. Samtök atvinnulífsins hafa m.a. verið með verulegar efasemdir um það hvort hagvöxtur verði hærri en vaxtabyrðin. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Telur hann forsendur fyrir því að endurskoða núna fjármálaáætlun ríkissjóðs? (Forseti hringir.) Í öðru lagi: Hvenær fær Alþingi aðgang að áhættumati ríkisstjórnar, sem ég geri ráð fyrir að hafi verið gert vegna þessarar 600 milljarða lántöku?