151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

sala Landsbankans á fullnustueignum.

[13:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég er talsmaður þess að sem allra mest gegnsæi ríki, ekki bara í stjórnsýslunni heldur líka hjá opinberum fyrirtækjum og félögum. Það er niðurstaðan í mínu ráðuneyti að við séum ekki í aðstöðu til að krefjast þess að þessar upplýsingar séu látnar okkur í té. En reglur um þessi efni eru m.a. settar hér á Alþingi, reglur um fjármálastarfsemina almennt. Grundvöllur að eignarhaldi ríkisins á Landsbankanum er lagður hér á þinginu. Ég ætla ekki að fara út í langar bollaleggingar um hina einu réttu lagalegu niðurstöðu í þessu álitamáli. Ég ætla bara að segja það að ég vil ekki gerast talsmaður þess að við höldum til baka upplýsingum sem þingið metur mikilvægar og þingið hefur auðvitað mikil tækifæri til að hafa áhrif á aðgengi að upplýsingum af þessum toga, svo lengi sem það myndast ekki miklar mótsagnir í einstökum lögum þannig að markmiðin stangist á.

Ég verð að svara því neitandi að ég muni halda áfram að láta á það reyna hvort við getum krafist þess að fá upplýsingarnar til okkar í þeim tilgangi að koma þeim til þingsins. Ég get ekki nema bara staðið með svarinu sem liggur fyrir þinginu. Sé það hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að það sé röng lagaleg niðurstaða að upplýsingarnar séu ekki aðgengilegar þá verðum við að taka málið aftur upp.