151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008.

352. mál
[14:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir skýrslu sem ég hef lagt fyrir Alþingi um ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis, eins og hæstv. forseti fór yfir. Tilurð og aðdraganda hennar má rekja til skýrslubeiðni hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar ásamt fleirum á 148. löggjafarþingi. Ljóst var frá upphafi að umfang verkefnisins væri slíkt að ekki tækist að ljúka því innan tilætlaðs frests en hins vegar hef ég reglulega upplýst þingið um að skýrslan sé í vinnslu. Ég ætla ekki að nýta minn litla tíma hér til að fara yfir fyrirkomulag skýrslubeiðna á Alþingi. Um það væri margt að segja. En eftir stendur þetta plagg, sem er hátt í 400 blaðsíður, þar sem leitast hefur verið við að taka mið af þeim áherslum sem koma fram í beiðninni að svo miklu leyti sem unnt er. Í þeirri vinnu hefur m.a. falist að greina og afmarka allar ábendingar sem varða stjórnsýsluna og setja þær svo fram í sem bestu samhengi. Það hafa verið afmarkaðar 339 ábendingar. Að ritun þessarar skýrslu komu nokkur ráðuneyti og stofnanir þannig að þetta er umtalsvert verk og áhugavert aflestrar, vona ég.

Rannsóknarskýrslur Alþingis vörpuðu ljósi á veikleika í íslensku stjórnkerfi en að sama skapi sýna þær niðurstöður, sem við erum með í þessari skýrslu, að stoðir stjórnsýslunnar hafa verið treystar verulega á þeim rúma áratug sem liðinn er frá hruni og helst það að hluta til í hendur við alþjóðlega þróun. Ég nefndi 339 ábendingar sem hefðu verið afmarkaðar og við þeim hefur verið brugðist að nokkru leyti eða öllu, þ.e. 320 af 339 ábendingum, sem ég myndi telja að væri allnokkur árangur.

Ég ætla að stikla á stóru í viðbrögðum við ábendingum eins og þeim er lýst í skýrslunni. Þar ber fyrst að nefna að umgjörð og skilyrði stjórnsýslunnar hafa tekið gagngerum breytingum. Þar get ég nefnt ný heildarlög um Stjórnarráð Íslands sem sett voru árið 2011 og miðuðu að því að bæta störf og starfshætti ráðherra ríkisstjórnar og stjórnsýslu Stjórnarráðsins almennt. Eitt helsta markmiðið var að efla samhæfingu starfa á milli ráðherra, m.a. kveðið á um skyldur ráðherra til að leitast við að samhæfa stefnu og aðgerðir þegar málefni og málefnasvið skarast og skýrt kveðið á um stjórnunar- og eftirlitsskyldur ráðherra með stjórnvöldum á málefnasviði viðkomandi ráðherra. Undirbúningur og gæði lagasetningar hafa verið bætt og um leið sú stefnumótun sem löggjöf byggir á. Í forsætisráðuneytinu hefur verið sett á fót skrifstofa löggjafarmála sem fer með gæðaeftirlit við undirbúning stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna ráðuneyta. Árið 2017 samþykkti ríkisstjórn reglur um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna. Breytt fyrirkomulag við mat á áhrifum frumvarpa var tekið upp með lögum um opinber fjármál 2015 með aukinni áherslu á heildaráhrif stjórnarfrumvarpa og að fyrir liggi tilhlýðilegt mat á fjárhagslegum áhrifum auk annarra atriða áður en mál eru lögð fyrir Alþingi. Samráðsgátt Stjórnarráðsins var opnuð í febrúar 2018 þar sem lögð eru fram til samráðs stefnuskjöl, áform um lagagerð og smíði reglugerða, drög að stjórnarfrumvörpum sem og EES-gerðir. Þar með var kröfum um opið samráð við gerð lagafrumvarpa mætt og gagnsæi stóraukið.

Stefnumótun hefur markvisst verið efld hjá Stjórnarráðinu til samræmis við ábendingar. Lög um opinber fjármál hafa þar markað ákveðin þáttaskil þar sem kveðið er á um skyldu ráðherra til að móta stefnu fyrir málefnasvið og málaflokka til fimm ára í senn. Fræðsla og þjálfun hefur sömuleiðis verið aukin með tilkomu Stjórnarráðsskólans. Aukið gagnsæi og bætt skráning upplýsinga voru meðal markmiða með nýjum lögum um opinber skjalasöfn árið 2014, nýjum upplýsingalögum árið 2013 og frekari umbætur voru gerðar á lagaumgjörð stjórnsýslunnar með endurskoðun upplýsingalaga árið 2019 og ná lögin nú til handhafa löggjafar- og dómsvalds. Þá var hámarksmálsmeðferðartími styttur og ráðuneytum gert að birta skrá yfir mál sem eru til meðferðar.

Grundvallarbreytingar hafa orðið á umgjörð um fjármálakerfið. Umbætur á lögum um fjármálafyrirtæki felast m.a. í auknum eiginfjárkröfum og gera þannig fjármálafyrirtæki betur í stakk búin til að takast á við rekstrarerfiðleika. Með nýjum reglum um aukið laust fé er stuðlað að því að fjármálafyrirtæki geti mætt greiðsluskuldbindingum sínum. Settar hafa verið reglur um könnunar- og matsferli Fjármálaeftirlits Seðlabankans, eiginfjárauka og vogunarhlutfall sem vinnur gegn yfirskuldsetningu. Áhersla hefur verið á að skýra hlutverk, ábyrgð og skyldur stjórnar og gagnger endurskoðun átt sér stað á reglum um áhættustýringu, stöðuga fjármögnun og innra eftirlit fjármálafyrirtækja. Ný löggjöf um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja miðar að því að takmarka tjón af vandkvæðum fjármálafyrirtækja. Neytendavernd hefur verið efld með nýrri löggjöf um vátryggingastarfsemi sem einnig stuðlar að fjármálastöðugleika.

Ný löggjöf um rekstraraðila sérhæfðra sjóða á rætur að rekja til viðbragða við erfiðleikum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum 2008–2009, en vandamál tengd slíkum sjóðum eru talin hafa aukið áhættu innan evrópska fjármálakerfisins. Með löggjöfinni er tekið á skorti á heildarsýn yfir lausafjáráhættu og áhættu tengda vogun sérhæfðra sjóða. Umbætur á löggjöf á verðbréfamarkaði hafa verið gerðar í formi nýrra laga um skortsölu og um afleiðuviðskipti. Regluverk varðandi eignarhald á fjármálafyrirtækjum hefur tekið grundvallarbreytingum frá árinu 2008 en fjárfestir sem hyggst fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki verður að standast hæfismat sem byggir á ítarlegri greiningu og gagnaöflun. Skyldur eigenda virkra eignarhluta til að veita upplýsingar hafa verið auknar og Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur viðvarandi eftirlit með hæfi þeirra. Takmarka má eignarhald ef fjárfestir er talinn óhæfur til að fara með virkan eignarhlut þrátt fyrir að hafa áður verið metinn hæfur.

Frá árinu 2014 hefur verið heimilt að stöðva fjárfestingu erlendra aðila í kerfislega mikilvægum bönkum ef slík fjárfesting er talin fela í sér kerfisáhættu. Sameining Seðlabanka og Fjármálaeftirlits var liður í stöðugt auknu samstarfi stofnananna tveggja frá hruni en áður hafði verið komið á samstarfssamningi árið 2011 um greiningu á áhættu í fjármálakerfinu í heild og komið á formlegri umgjörð samráðs um málefni fjármálastöðugleika með aðkomu ráðherra frá árinu 2014 með stofnun fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar sem starfaði fyrir það. Með sameiningunni eru yfirsýn og úrræði til að stuðla að fjármálastöðugleika komin á einn stað og um leið skapaðar mun betri forsendur fyrir samþættingu eindar- og þjóðhagsvarúðar annars vegar og, eftir því sem við á, peningastefnu og fjármálastöðugleikastefnu hins vegar. Fjármálaeftirlitið hefur tekið miklum breytingum með tilliti til skipulags og starfshátta þess í þágu aukinnar festu og eftirfylgni í meðferð mála hjá stofnuninni, auk fjárfestinga í mannauði og upplýsingakerfum.

Loks hafa töluverðar umbætur verið gerðar á stjórn efnahagsmála í því skyni að tryggja betur að markmið um verðstöðugleika og almennan efnahagslegan stöðugleika geti náðst. Peningastefnunefnd var komið á fót 2009 og ákvarðanir um beitingu stjórntækja peningastefnunnar gerðar markvissari og betur tengdar undirliggjandi efnahagsgreiningum og spám. Gagnsæi hefur aukist sem skapar forsendur fyrir bættri umræðu um peningamál og auknum skilningi á mótun og framkvæmd stefnunnar. Þá var umgjörð um opinbera fjármálastefnu gjörbreytt með lögum um opinber fjármál 2015 og áætlanagerð og stefnumörkun stjórnvalda betur löguð að langtímahugsun, stöðugleika og aga við meðferð opinberra fjármuna.

Umhverfi vinnumarkaðsmála hefur verið í brennidepli og ber þar hæst stofnun þjóðhagsráðs aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda og Seðlabankans og aukið hlutverk þess síðan frá árinu 2019 með kjaratölfræðinefnd og reglubundnum fundum. Ráðinu er ætlað að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og áhrifum á loftslagsmál. Samráð og samhæfing varðandi hagstjórn hefur verið aukin, m.a. með flutningi efnahagsmála til efnahags- og viðskiptaráðuneytis og síðar fjármála- og efnahagsráðuneytis. Ráðherranefndum var komið á með nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands 2011 og þær eru vettvangur fyrir ráðherra sem ábyrgð ber á skyldum málefnum til að samhæfa stefnu sína og aðgerðir í málum og málaflokkum.

Að endingu vil ég segja, herra forseti, því að þarna fór ég bara yfir stóru línurnar í þessari skýrslu um það sem lýtur að fjármálakerfinu og stjórnkerfinu sem slíku, að í raun er skýrslan töluvert umfangsmeiri. Þar er líka fjallað um ýmsar ábendingar sem lúta að siðferði, starfsháttum, menntakerfi og fjölmiðlum. Mér gefst ekki tími til að fara yfir allt það sem hefur verið unnið í þeim efnum, m.a. þær breytingar sem gerðar voru á lögum um háskóla til að tryggja akademískt frelsi, breytingar sem hafa verið gerðar á ýmsum þáttum sem varða siðareglur fyrir bæði Alþingi, ráðherra, varnir gegn hagsmunaárekstrum og fleiri þætti.

Í stuttu máli vil ég segja, herra forseti, að eins og kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis var ærið tilefni til umbóta bæði í lagaumhverfi og stjórnkerfi Íslands eftir hrunið. Hér á Alþingi var á þeim tíma samstaða um að koma á fót óháðri nefnd til að rannsaka aðdraganda þess og orsakir og á síðastliðnum rúmum áratug hafa alls fimm ríkisstjórnir unnið að bættri umgjörð stjórnsýslunnar og fjármálakerfisins. Þó að þessi skýrsla hafi kostað töluverða vinnu og sé kannski ekki hefðbundin skýrsla sem unnt er að biðja um á Alþingi með tiltölulega litlum fresti, er ég samt mjög ánægð með að ráðist var í gerð hennar því hún sýnir að unnið hefur verið mjög markvisst að úrbótum innan stjórnkerfisins, fjármálakerfisins og Alþingis á þessum áratug. Slík skýrsla er því liður í að staldra við og kanna hver staðan er en getur líka verið liður í áframhaldandi umbótastarfi. Þótt mikið verk hafi verið unnið er ljóst að umbótastarfi á þessum sviðum lýkur aldrei.

Þannig að ég vil bara segja það, herra forseti, að ég held að hér sé mikið verk á ferð sem getur reynst okkur gagnlegur leiðarvísir um framhaldið en líka mikilvægt til upprifjunar, því þarna hafa vissulega allmargir komið að málum til að gera íslenskt stjórnkerfi betur í stakk búið til að takast á við stórar áskoranir, íslenskt fjármálakerfi betur í stakk búið til að gera slíkt hið sama og samfélagið allt.