151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008.

352. mál
[15:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það hefur verið ansi langur aðdragandi að þessari skýrslu. Hugmyndin að henni kviknaði á 146. þingi yfir andsvörum við flutningsræðu hv. þm. Einars Brynjólfssonar, sem þá var á þingi, um rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Þar var Svandís Svavarsdóttir, þáverandi þingmaður og núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, í andsvari við flutningsmann og spurði, með leyfi forseta:

„Eigum við með skipulegum hætti að skoða málið aftur eftir fjögur ár, eftir tvö ár, eftir fimm ár, eftir eitthvað, þannig að við högum okkur sjálf í þá veru að það gerist aldrei að við föllum í freistni hvítþvottar, þ.e. það komi út skýrslur og við teljum þar með að við séum búin að tikka í boxin og getum haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist?“

Í kjölfarið gaf ég mig á tal við hv. þingmann og spurði hvort við ættum ekki einmitt að spyrja um hvernig gengi að framfylgja þeim ábendingum sem fram komu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hvernig gengi nú eiginlega að vinna úr þeim gögnum sem þar komu fram. Úr því varð einmitt beiðni um skýrslu sem flutt var á 147. þingi, sem ég, Svandís Svavarsdóttir, Einar Brynjólfsson, Andrés Ingi Jónsson, Birgitta Jónsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Nichole Leigh Mosty, Oddný G. Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Smári McCarthy, fluttum.

Það þing varð ansi stutt, eins og fólk þekkir, og beiðni um skýrslu var endurflutt á 148. þingi, á þessu kjörtímabili. Þá voru flutningsmenn sá sem hér stendur, Hanna Katrín Friðriksson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Inga Sæland, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Oddný G. Harðardóttir, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Hér stöndum við loksins nokkrum árum síðar með afurð þessarar skýrslubeiðni.

Það kom mér mjög á óvart að ekki hafi verið haldið skipulega utan um þær ábendingar sem fram komu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég bjóst í alvörunni ekki við því að það yrði svona mikið mál að taka þessar niðurstöður saman af því að ég hélt að eftir alla þá vinnu sem lögð var í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, væri haldið utan um það á skipulagðan hátt sem þyrfti að gera og það sem gert hefði verið og væri tiltölulega einföld samantekt að skella því saman í skýrslu og skila Alþingi. Þannig að það kom mér mjög á óvart hversu mikla vinnu þurfti til að fá það plagg sem við fjöllum hér um.

En skýrslan er komin og er vel aðgengileg og vel unnin. Það er mjög mikilvægt að fá þessa skipulögðu samantekt á þeim ábendingum sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna og hvernig hefur verið brugðist við henni. Það býr til heildstæða mynd um hvað gert hefur verið og hvernig mismunandi aðgerðir eru sem tengjast síðan sem ein heild til að bregðast við þeim vanda sem kerfið var í fyrir hrun. Síðast, nefnilega fyrir hrun og þegar hrunið varð, var það ekki bara regluverkið sem var ekki nægileg gott heldur stóðu eftirlitsaðilar ekki undir væntingum. Það voru reglur til staðar sem ekki var framfylgt.

Dæmi um nauðsyn gæðaeftirlits er t.d. að finna í skýrslunni, í ábendingum 152–200, um þau vandamál í upplýsingagjöf sem áttu sér stað á milli Fjármálaeftirlits, Seðlabanka, innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar og síðan við Glitni um yfirtökuna sem þar fór fram. Þetta eru dæmi um hvers vegna gæðaeftirlit er mikilvægt. Niðurstaða þessarar skýrslu er að almennt er búið að bregðast við þeim ábendingum sem fram komu í rannsóknarskýrslunni. Það er mikilvægt að þær upplýsingar séu aðgengilegar til þess að byggja upp traust á fjármálakerfinu. Það er mjög mikilvægt að fólk fái það ekki á tilfinninguna að um falskt öryggi sé að ræða, að það trúi því að ekki sé um falskt öryggi að ræða. Mikilvægt er að meira gagnsæi sé varðandi það gæðaeftirlit sem er í dag, gæðaeftirlit sem virkar og vinnur vel vegna þess sem út af brá fyrir hrun, að í alvörunni sé verið að vinna á virkan hátt gegn því að slíkt geti komið upp aftur.

Í skýrslunni eru 339 ábendingar um atriði sem einhver ber ábyrgð á framkvæmd á. Alls eru 12 ábendingar sem sagt er að ekki hafi verið brugðist við. Það er líka áhugavert af ýmsum ástæðum. Þar eru t.d. þeir sem eru ábyrgðaraðilar gagnvart framkvæmd: Það er fjármála- og efnahagsráðuneytið, það er Seðlabanki Íslands, það er fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands, það er forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, sem er annar ábyrgðaraðili nokkurra ábendinga, það er embætti forseta Íslands, það er mennta- og menningarmálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, varðandi aðrar skýrslur. Þetta er gríðarlega viðamikið verkefni sem er ástæðan fyrir því að það var pínulítið vandamál þegar skýrslubeiðnin var lögð fram fyrst til hvaða ráðherra skýrslubeiðnin ætti að fara. Hún endaði hjá hæstv. forsætisráðherra vegna þess að þar var ákveðið samhæfingarhlutverk á milli til að safna saman upplýsingum frá öllum þessum mismunandi aðilum.

Það eru nokkur athyglisverð atriði sem mig langar til að minnast á, t.d. kemur fram í ábendingu nr. 74 að margt bendir til þess að innan bankanna hafi aðgreining miðlunar og deilda eigin viðskipta í reynd ekki verið jafn mikil og ætla hefði mátt. Tekur rannsóknarnefndin fram að það sé mjög mikilvægt fyrir eðlileg verðbréfaviðskipti að þessi aðgreining sé í raun fyrir hendi. Þar er því svarað með því að brugðist hafi verið við þessari ábendingu með ýmsum aðgerðum, sem er áhugavert með tilliti til atkvæðagreiðslu dagsins um varnarlínu um fjárfestingarbankastarfsemi. Maður veltir því óhjákvæmilega fyrir sér hvort svarið hafi í raun og veru verið já við þessari ábendingu, eða bara: Ekki nægilega vel. Eða er það sem verið var að gera í dag kannski meira en þarf eða bara sýndarmennska, eins og kom fram í þeirri umræðu?

Hvað eigum við að gera við þetta plagg í kjölfarið? Ég tel að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætti að taka þessa skýrslu til sín og biðja um umsagnir vegna þeirra aðgerða sem fjallað er um í skýrslunni við þeim ábendingum sem þar birtast. Þær aðgerðir sem sagt er að gripið hafi verið til koma fram í orðum þeirra aðila sem eiga að bregðast við. Og eins og ávallt þarf þingið að fara yfir slíkar útskýringar á gagnrýninn hátt. Þingið fer með eftirlitshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu og sem slíkt getur þingið ekki tekið útskýringar framkvæmdarvaldsins góðar og gildar án nánari skoðunar. Við höfum nokkur dæmi um misbrest í því á undanförnum árum. Sú skýrsla sem við höfum hér er því upphafið að endalokum þessa hluta hrunsins, endalok sem munu sýna fram á að stoppað hefur verið upp í öll göt þannig að sambærilegt hrun mun ekki eiga sér stað aftur. Að framvindan verði þá nýjar áskoranir byggðar á traustum grunni þess að hafa lært af fyrri mistökum.

Ábendingarnar fjalla um margar risastórar samfélagslegar spurningar líka, eins og hæstv. forsætisráðherra kom hérna inn á, svo sem spurningar um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja sem ekki er hægt að fara yfir á nægilega greinargóðan hátt í 90 mínútna ræðu í þingsal frá öllum flokkum. Ég tel að vinna þurfi áfram með þær ábendingar og niðurstöður þeirra og kalla eftir umsögnum og samfélagslegri umræðu um þau lykilatriði sem fjallað er um í þessari skýrslu; um traust á bæði fjármálakerfinu og stjórnmálum, um hvað gert hefur verið til að byggja undir endurnýjað traust og hvort það sé nóg. Ef atvinnulífið á að bera ábyrgð á sjálfu sér, líkt og fjallað er um í rammagrein á blaðsíðu 232, þarf sú ábyrgð að vera sýnileg og skiljanleg. Í nýlegu máli um meintar mútur íslensks fyrirtækis í Afríku er ekki svo augljóst að staðið sé við loforð um ábyrgð, svo dæmi sé tekið. Slík mál geta auðveldlega grafið undan öllu trausti á öllu atvinnulífinu. Því verður að sýna ábyrgðin skili sér til þeirra sem hana bera.

Önnur rammagreinin fjallar um siðareglur ráðherra og stjórnsýslunnar. Mikilvægi slíkra reglna er að finna í því hruni sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis fjallar um. Ekki þarf að leita langt til að finna dæmi um hvernig ráðherrar hafa farið frjálslega með siðareglurnar síðan þær voru settar. Ráðherrar hafa stungið skýrslum undir stól, hringt í vin, umturnað heilu dómstigi, haft ýmis pólitísk afskipti. Það er ekki nóg að setja reglur og segja að allt sé orðið betra. Það verður að sýna að farið sé eftir þeim og þegar brugðið sé út af þeim þýði það ábyrgð.

Að lokum er rammagrein um stóraukna áherslu á gagnrýna hugsun og akademískt frelsi í námskrá og löggjöf. Hvernig hefur það skilað sér? Hefur markvisst verið unnið samkvæmt því og hefur það skilað árangri? Því að síðan aðalnámskrá var sett með þessum áherslum hafa t.d. falsfréttir náð góðu flugi. Það eru rosalega mörg áhugaverð atriði í þessari skýrslu og ég hvet eindregið til þess að skýrslunni verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem kalli eftir umsögnum og frekari samfélagslegri umræðu.