151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008.

352. mál
[15:34]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það virðist vera hér til siðs að þakka fyrir skýrslubeiðnir og skýrslur en ég verð að viðurkenna að þakklæti var mér ekki efst í huga þegar ég sá þessa 400 blaðsíðna skýrslu um skýrslurnar. Ég velti fyrir mér: Hvert erum við eiginlega komin í öllu skýrslufarganinu og stjórnsýslunni sem stundum fer að snúast öll í kringum sjálfa sig? Mér leikur reyndar líka forvitni á að vita, ég fann það ekki í fljótu bragði og verð að viðurkenna hér í ræðustól, virðulegur forseti, að ég er ekki búin að lesa allar 400 blaðsíðurnar, hvað skýrslan kostaði. Kannski er þetta bara alger pirringur í þeirri sem hér stendur og þegar betur er að gáð verður hv. þingmaður sem hér stendur kannski jafn glaður og ánægður og hv. þingmaður sem talaði áðan, Willum Þór Þórsson, sem sagði að þetta væri allt saman hið besta mál þrátt fyrir að hafa haft efasemdir um það til að byrja með. Þegar gerðar eru jafn viðamiklar skýrslur og rannsóknarskýrslan um Alþingi var á sínum tíma er eðlilegt að með einhverjum hætti sé hægt að fylgja eftir þeim ábendingum sem fram eru komnar. Ekki er ég talsmaður þess að farið sé í alls konar stefnumótanir og skoðanir á hinu og þessu og svo séu það bara einhver plögg sem liggja uppi í hillu, alls ekki. Ég fór þess vegna að velta fyrir mér hvort það væri ekki einhver formbetri leið til að halda utan um þetta, einhvers konar gagnagrunnar og annað þar sem væri hægt að fletta því upp hvað hefði verið gert í ýmsum málum. Það er alveg skýrt og við höfum svo sem fjallað um það hér í þessum sal frá því að ég settist á þing, að það hafa t.d. verið gerðar miklar breytingar á laga- og eftirlitsumgjörð um fjármálamarkaðinn. Við erum nýlega búin að fjalla um það hér í tengslum við væntanlega sölu á hlut í Íslandsbanka. Það er farið mjög vel yfir það í skýrslunni. Það eru nokkrir tugir frumvarpa sem hafa komið fram um breytingar á umhverfi fjármálamarkaða. Lög um opinber fjármál hafa líka verið nefnd hér. Ég skal alveg viðurkenna það, hafandi haft tækifæri til að setjast hér á þing sem varamaður, líklega á árunum 2004, 2005, einmitt á tíma þegar verið var að samþykkja fjárlög korter í jól, að það var verið að rífast um oft mjög litlar upphæðir til safna eða einhverra þátta sem kannski skipta miklu máli og það var augljóslega ekki verið að ræða stóru myndina. Það er svakalegur munur núna á þeirri umgjörð sem við höfum í kringum opinber fjármál með fjármálastefnu, fjármálaáætlun og svo fjárlögunum og framsetningunni þar sem við erum með verkefni, verkþætti, tíma, ábyrgðaraðila og fé í hvert verkefni. Þetta er svakalega mikill munur og til mikilla bóta.

Virðulegur forseti. Í tengslum við fjármálakerfið hefur líka svolítið verið rætt, og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom inn á það áðan, að það vantaði enn frekari umræðu um bankakerfið og hvað almenningur vill með bankakerfinu. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst svona hljóma oft — kannski hljómar þetta vel í ræðu, en hvað erum við raunverulega að tala um? Við höfum tekið upp allt regluverk Evrópska efnahagssvæðisins í kringum fjármálakerfið, gengið jafnvel enn lengra á þeim forsendum að við séum lítið kerfi og viljum ganga enn lengra í að tryggja öryggi, en samt vill fólk eitthvað ræða það hvernig almenningur vill hafa hlutina. Ég skil ekki þessa umræðu nema fólk sé hreinlega segja að við viljum eiga ríkisbanka, ríkisbankar eigi að vera ríkisbankar um alla framtíð og það sé bara eðlilegt að ríkið eigi tvo af þremur viðskiptabönkunum. Það þykir mér ekki eðlilegt, svo það sé skýrt tekið fram.

Virðulegur forseti. Það kann vel að vera að þessi skýrsla geti komið sér ágætlega og það er ágætt að sjá öll þessi já, þegar maður flettir yfir það við hverju er búið að bregðast og hverju ekki. Auðvitað er nei í einhverjum tilfellum. Kannski væri gott að hafa þetta sett upp í einhvers konar gagnagrunn þegar verið er að fara betur yfir þetta. En vegna þess að það kom fram í umfjöllun frá þingmanni Miðflokksins, það var eflaust hv. þm. Ólafur Ísleifsson, sem sagði það, að Miðflokkurinn væri einna helst að óska eftir annarri rannsóknarskýrslu, þá veit ég ekki, virðulegur forseti. Það er auðvitað mikilvægt að við lærum af fortíðinni og við eigum að horfa á þau mistök sem voru gerð í fortíðinni og læra af því. En mér þykir við stundum of upptekin af fortíðinni og ekki horfa nógu mikið inn í framtíðina. Ég er eiginlega alveg sannfærð um að verkefni okkar í framtíðinni og það sem kann að koma upp á í framtíðinni og gæti verið alveg jafn viðamikið og bankahrunið var, er eitthvað allt annað en við lentum í þá. Eins og það er gott stundum að rifja upp hvað fór úrskeiðis og hvað hefur verið gert til að bregðast við þá ætla ég líka að hvetja til þess að við förum hér í frekari umræðu um framtíðina.