151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008.

352. mál
[16:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hv. þingmönnum þykir misgagnleg. Það eru ekki margir hv. þingmenn á þingi enn sem voru hér í hruninu en ég er ein þeirra. Ég þekki því ágætlega vinnulagið sem tíðkaðist þá sem og í Stjórnarráðinu þegar ég tók við sem ráðherra 2009 og get sagt við þau sem telja að svona skýrslugerð sé fullkomlega gagnslaus, og hvað þá að taka eitthvað saman af því sem gert hefur verið, að það skiptir mjög miklu máli. Ég veit að það er himinn og haf á milli vinnubragða, hvort sem er í Stjórnarráðinu eða á Alþingi, og hluti af því hefur gerst vegna ábendinga í rannsóknarskýrslu Alþingis, hluti af því hefur gerst með eðlilegum lífrænum hætti, vegna umræðu og reynslu þeirra sem gengu í gegnum þetta, og hluti af því hefur orðið vegna nýrra ákvarðana. En við skulum ekki gera lítið úr því að það skiptir máli að draga lærdóm af því sem gerist. Það skiptir máli að vera reiðubúin að taka á móti lærdómum. Í ljósi þess hversu gríðarleg endurnýjun hefur orðið á Alþingi frá hruni — ég held að við séum kannski sjö, átta, níu sem enn erum hér og ekki hefur tekist að losna við frá hruni þannig að endurnýjun hefur verið mikil og endurnýjun hefur verið mikil í hverjum einustu kosningum — þá skiptir máli að við hugum að því sem við getum kallað stofnanaminni, hvort sem er í Stjórnarráðinu eða á Alþingi, að við glutrum ekki niður þeirri þekkingu sem hefur skapast. Þessi vinna skiptir auðvitað máli til að halda utan um þá þekkingu og reynslu sem við tókum út úr hruninu.

Hér er rætt töluvert um það sem ekki er í skýrslunni. Ég vil minna á að skýrslan snerist auðvitað um að verða við beiðni um ákveðna þætti, þ.e. að skoða allar ábendingar sem komu fram í tilteknum rannsóknarskýrslum. Hv. þingmenn hafa nokkrir spurt: Hví er ekki fjallað um eitthvað annað hér? En beiðnin var um þetta og við því er orðið þannig að skýrslan fjallar bara nákvæmlega um það sem hún átti að fjalla um.

Það er alveg rétt að kalla má sumt af því sem rætt var eftir hrun einhvers konar eftiráspeki. Það er samt ekki þannig að ekki hafi ýmislegt komið fram í ýmsum varnaðarorðum fyrir hrun þannig að ekki er aðeins um eftiráspeki að ræða. Ég er ekkert feimin við að rifja upp til að mynda atbeina míns flokks á Alþingi fyrir hrun þar sem m.a. var varað við ýmsu af því sem mátti sjá fyrir í hruninu og það er ekkert hægt að líta neitt fram hjá því og afgreiða þetta allt sem eftiráspeki. Hins vegar er það svo að það sem mér fannst gagnlegt við þessa vinnu — svo getur vel verið að við eigum þetta til og séum ekki að fara að vinna neitt frekar með þetta en það er alfarið ákvörðun þingsins — og það sem skiptir máli er að það er áhugavert að fara yfir ábendingarnar og sjá í raun og veru þær gríðarlegu breytingar sem hafa orðið í stjórnkerfinu og sérstaklega í fjármálakerfinu. Þar er ekki bara um að ræða breytingar á hinu evrópska regluverki, sem vissulega er fyrirferðarmikið á sumum sviðum, heldur líka þær breytingar sem við höfum sjálf staðið fyrir sem íslenskt samfélag.

Síðan er eðlilega spurt: Hvaða gagn gerir svona skýrsla fyrir næsta áfall sem íslenskt samfélag verður fyrir því að það verður öðruvísi? Núverandi kjörtímabil hefur ekki verið áfallalaust, og nærtækt að nefna heimsfaraldur en líka ýmis önnur áföll, og það skiptir máli að draga lærdóm af því hvernig er unnið, ekki síst þegar kemur að stjórnkerfi þar sem skiptir svo miklu máli að fólk vinni saman, samhæfi störf sín og geti þannig tekið réttar ákvarðanir, að hlutir séu skráðir niður og farið sé í rannsókn á viðfangsefninu til að taka sem bestar ákvarðanir fyrir samfélagið. Það vinnulag á alltaf við, hvort sem við eigum við heimsfaraldur eða bankahrun. Þannig að kannski er mikilvægasti lærdómurinn hvernig við vinnum en ekki nákvæmlega einstakar breytingar sem hafa verið gerðar á einstökum þáttum í einangruðum kerfum.

Annars vil ég bara þakka fyrir þessa umræðu, herra forseti. Ég tel a.m.k. að þessi skýrsla segi okkur að rannsóknarskýrslurnar voru teknar alvarlega, við ábendingum þeirra var brugðist og þær hafa margar hverjar verið til mikilla bóta.