151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

starfshópur um útgáfu öruggra opinberra skilríkja.

260. mál
[17:32]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um starfshóp um útgáfu öruggra opinberra skilríkja. Þetta er í sjötta sinn sem ég mæli fyrir þessari tillögu, sem er athyglisvert, ég komst að því áðan, eftir að hafa verið á þingi í ekki nema fimm ár. En þetta er engu að síður í sjötta sinn sem ég mæli fyrir þessari tillögu og vona heitt og innilega að það verði í síðasta sinn sem þarf að mæla fyrir svona tillögu og af þeirri ástæðu að hún nái fram að ganga.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögur að útgáfu öruggra opinberra skilríkja og áætlun um kostnað við að taka skilríkin í notkun. Í starfshópnum eigi sæti fulltrúar Þjóðskrár Íslands, ríkislögreglustjóra, Neytendastofu, Samtaka atvinnulífsins og Íslandsrótar auk fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Þá taki starfshópurinn mið af því starfi sérfræðinga sem nú vinna að samhæfðum norrænum skilríkjum eða kennitölum á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Dómsmálaráðherra skipi formann starfshópsins. Ráðuneyti greiði kostnað vegna starfshópsins og leggi honum til aðstöðu og nauðsynlega sérfræðiþjónustu. Starfshópurinn skili tillögum sínum til dómsmálaráðherra eigi síðar en 1. desember 2021.“

Forseti. Að mínu viti er sennilega allt of ríflegur tími gefinn í þetta. Hafi einhver einhvern tímann haft efasemdir um það að íbúum þessa lands ættu að standa til boða örugg opinber rafræn skilríki þá held ég að viðkomandi hljóti að hafa skipt um skoðun í þeim heimsfaraldri sem nú gengur yfir. Ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef sjálfur þurft að nota einhvers konar rafræn skilríki til að sinna þeim erindum sem ég áður sinnti með því að mæta á staðinn. Ég hef þurft að gera það í gegnum netið, ýmist með einhverjum sérstökum leiðum til rafrænnar undirskriftar eða með því að nota þau rafrænu skilríki sem okkur standa til boða.

Það eru fyrst og fremst tvenns konar skilríki í dag, forseti. Annars vegar er það Íslandslykill sem því miður er ekki metinn sem örugg opinber rafræn skilríki, er ekki nægilega öruggur og er því ekki algengur, þ.e. ekki gjaldgengur í öllum þeim tilvikum sem þarf að nota skilríki við. Hins vegar eru það rafræn skilríki í síma sem hægt er að fá í gegnum fyrirtækið Auðkenni. Þetta eru svona heilt yfir þau rafrænu skilríki sem okkur bjóðast þó að vafalaust séu einhver önnur þar til hliðar.

Engum blöðum er um það að fletta að þetta er það sem við stefnum til. Þannig munum við áfram eiga í okkar viðskiptum og samskiptum að stórum hluta til þrátt fyrir að heimsfaraldrinum linni. Við sjáum að æ stærri hluti verður rafrænn eða stafrænn, eða hvað við köllum það, með fjórðu iðnbyltingunni og þeim miklu breytingum sem þar verða. Við höfum séð skref stigin í þá átt með því að ökuskírteini eru núna orðin rafræn o.s.frv. Það eru engin rök fyrir því, forseti, að ríkið sem býður íbúum sínum upp á skilríki sem nauðsynleg eru; vegabréf, ökuskírteini, nafnskírteini — þegar ég segi býður þá á ég vissulega við gegn gjaldi sem dekki kostnaðinn. Það eru engin rök fyrir því að ríkið eigi ekki líka að bjóða íbúum með sömu forsendum skilríki sem þeir geta notað á þeim stað, ef má kallað internetið stað, sem verður æ stærri hluti daglegra athafna, athafna sem krefjast jafnvel skilríkja.

Ég ætla, forseti, ekki að lesa mig í gegnum greinargerðina, það er alger óþarfi. Hún er þingskjal og þarf ekki að lesa upp sem slíkt, en í henni er farið ágætlega yfir ýmsa hluti. Horft er til þess sem hefur verið gert víða í öðrum löndum, nefnd eru dæmi m.a. frá Eistlandi sem stendur mjög framarlega í þessu efnum.

Mig langar að minnast á Noreg af því að þar hefur verið unnið að breytingum á útgáfu persónuskilríkja til að mæta vaxandi kröfum. Fyrir nokkrum árum samþykkti Stórþingið ný lög sem fela m.a. í sér að lögreglan hefur fengið það hlutverk að gefa út örugg skilríki til norskra ríkisborgara og ríkisborgara annarra landa sem búsettir eru í Noregi og hafa þar réttindi og bera skyldur gagnvart stjórnvöldum. Fram að þeim lögum, forseti, varð það á forræði bankanna í Noregi að gefa út rafrænu skilríkin til viðskiptavina sinna en forsvarsmenn þeirra fyrirtækja gáfu stjórnvöldum til kynna að þeir teldu þessu verkefni betur fyrir komið hjá hinu opinbera enda væri um stjórnsýsluverkefni að ræða. Þetta tel ég vera mjög skynsamlega afstöðu hjá þessum norsku fyrirtækjum sem áður sáu um útgáfu skilríkjanna og það er á nákvæmlega þeim sömu forsendum sem hér er hugsað í þessu máli, að útgáfa skilríkjanna sé stjórnsýsluverkefni og þess vegna eigi hún fyrst og fremst að vera á höndum hins opinbera, eins og útgáfa annarra skilríkja sem ég fór yfir áðan.

Forseti. Að lokum langar mig að nefna að það hefur verið inni heimild til að kaupa fyrirtækið Auðkenni um nokkra hríð í fjárlögum. Ég tel einboðið að við samþykkjum þá tillögu sem fyrst, komum á fót þessari vinnu, þó ekki væri nema út frá þeirri skoðun minni að það sé betra viðskiptalega séð að hafa fleiri en einn kost í stöðunni. Sé eini kostur ríkisins til að komast í það að gefa út örugg opinber rafræn skilríki sá að kaupa eitt fyrirtæki þá hefur það áhrif á verðmiðann á umræddu fyrirtæki. Sé líka kostur á að ríkið sjálft gefi út sín skilríki þá breytir það held ég þeim viðræðum.

Forseti. Mér er alveg sama eftir hvaða leiðum hið opinbera fer til að gefa út örugg opinber rafræn skilríki. Fyrst og fremst er mér annt um að hið opinbera geri það af því að það er það sem íbúar landsins eiga skilið.