151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

starfshópur um útgáfu öruggra opinberra skilríkja.

260. mál
[17:47]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (andsvar):

Forseti. Takk fyrir andsvarið. Þegar kemur að því að skipa starfshópa hugsa ég frekar að það sé oftast byrjunin á mun lengra ferli. Erfitt er að eiga við ferlið þegar það er komið langt á veg eins og við sáum á því sem gerðist með Auðkenni á sínum tíma.

Til að svara spurningunni þá held ég að það sé mjög skynsamlegt að fólk hafi val en það eru mismunandi leiðir til að velja. Þegar ég segi það meina ég að val getur verið þvingað eða óþvingað eins og ég var að reyna að benda á. Dæmi um það sem hefur gerst með rafræna auðkenningu er að þegar ég hafði samband við bankann á sínum tíma og nefndi að ég væri ekki með rafræn skilríki var viðmótið frekar eins og ég væri með vesen, til að orða það rétt. Það varð til þess að ég neyddist til að fá mér þessi rafrænu auðkenni þótt mig langaði alls ekki að kaupa þjónustu af Auðkenni ehf. En ég neyddist til þess að lokum. Það er kannski valið sem mig langar svolítið að ítreka að þurfi að vera til staðar.

Það er svolítið þetta með hver nauðsynin er á að skipa þennan starfshóp og á hvaða forsendum hann mun vinna. Þetta er hugmynd sem er mjög auðvelt að selja hinum almenna borgara, en eins og ég benti á er munur á öryggi og öryggi. Öryggi er alls konar og fólk getur misskilið hvað er öruggt og hvað ekki. Það sem hefur gerst með þennan rafræna auðkenningarlykil er að við höfum ekkert val um (Forseti hringir.) hvort við notum hann tæknilega séð. Að mínu viti er hann ekki endilega eins öruggur og öll vilja endilega telja mér trú um.