151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

börn á biðlistum.

[13:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en þau eru ekki nógu skýr. Við vitum að núna í Covid hefur ástandið á biðlistunum versnað. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að fyrir hverja krónu sem sett er í það að taka á biðlistunum skila sér örugglega 99 kr. til baka. Hvernig getur verið ásættanlegt að segja við barn sem er sjö ára gamalt: Heyrðu, þú færð þjónustu þegar þú verður tíu ára? Hvað verður um þetta barn í skólakerfinu? Hver er framtíð þessa barns? Það er ábyrgðarhluti að segja aftur og aftur að verið sé að gera eitthvað en á sama tíma lengjast biðlistarnir. Síðan er alltaf verið að tala um að það vanti 180 milljónir til að dekka þjónustu talmeinafræðinga. Við erum búin að setja milljarða til þeirra sem greitt hafa sér arð út af Covid-faraldrinum. En stoppum við þá? 180 milljónir fyrir börn. Ég trúi því ekki.