151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

refsingar fyrir heimilisofbeldi.

[13:27]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Forseti. Ég þakka fyrir svörin er snúa að aðgerðum lögreglu. En fyrir hönd þolenda í dómskerfinu ætla ég að fara með ljóð, Dómskerfið í augum kvenna.

Maður lemur konuna sína.

Maður reynir að drepa kærustuna sína.

Maður nauðgar maka sínum

og hópur manna nauðgar stúlku í partíi og tekur það upp.

Þær segja frá, en þeir segja nei.

Þeir voru að verja sig, þeir héldu að hún fílaði það.

Dómskerfið segir: Já, mikið eru þær heppnar að þetta var ekki alvarlegra.

Þeir hefðu nefnilega getað drepið þær og þá hefðum við kannski skoðað það betur.

En þær lifðu. Heppnar.

Eftir stendur: Hví hatar dómskerfið konur?

Í fréttaskýringu frá upphafi árs sáum við að þriðjungi sakfellinga í nauðgunarmálum er snúið við í Landsrétti. Þessu nýja dómstigi sem ætlað var að styrkja og efla réttarkerfið virðist einna helst takast að vefengja frásagnir brotaþola, að efast um ásetning nauðgara og gera athugasemdir við ástand þolenda. Hér liggur fyrir stórkostlegt vandamál og við því þarf að bregðast. Réttarkerfið bregst þolendum endurtekið. Ég spyr því aftur: Hvernig ætlar ráðherra að beita sér fyrir því að dómskerfið fari að virka fyrir þolendur ofbeldis?