151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um þjóðaröryggismál. Spurningin er: Hvað flokkast undir þjóðaröryggi? Það er kannski stærsta málið. Náttúruhamfarir eru margar og mismunandi og nú skelfur jörð, hætta er á eldgosum. En hvað með t.d. Golfstrauminn? Er það eitthvað sem við þurfum að fara að huga að? Er það áhyggjuefni að hann sé að minnka um 15%? Er það áhyggjuefni ef hann minnkar meira og stöðvast jafnvel? Þurfum við ekki að taka umræðu um hvaða afleiðingar það myndi hafa? Jú. Og hvers vegna gerist það? Vegna loftslagsvárinnar og vegna þess að Grænlandsjökull er að bráðna hratt. Gífurlegt magn af fersku vatni streymir út í Atlantshafið.

Síðan er annað sem við þurfum að huga að, það er, eins og kom fram í upphafi, fæðuöryggi, hvernig við eigum að bregðast við því. Fæðuöryggi er á margan hátt þjóðaröryggismál. Það hlýtur að vera ákveðið óöryggi fyrir stóran hluta þeirra einstaklinga sem ekki geta keypt sér fæði frá degi til dags heldur verða að treysta á hjálparstofnanir. Hver er staða þeirra einstaklinga ef þeir einangrast? Hún er skelfileg.

Og síðan er það vegakerfið. Það er eitt af því sem við þurfum að huga að. Ég man það þegar ég flutti í Hafnarfjörð á sínum tíma að þar var svokölluð flóttamannaleið. Sú flóttamannaleið er ekki boðleg í dag ef það þyrfti að rýma bæinn. Hvernig sjáum við t.d. fyrir okkur að rýma Seltjarnarnes eða Reykjavík á augabragði í dag, á háannatíma, að morgni eða að kvöldi? Ég held að það sé gjörsamlega vonlaust dæmi. Við eigum líka að hafa lýðveldishátíðina á Þingvöllum sem víti til varnaðar. Við vitum hvernig það endaði, hvernig bílastraumurinn var og sömuleiðis hvernig fólk sat þar fast í fleiri klukkutíma. Hvernig væri það þá ef eitthvað kæmi upp á?