151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi.

560. mál
[14:36]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í byrjun þessa árs tóku gildi breytingar á fyrirkomulagi skimunar fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum. Mörgum brá. Viðbrögðin hafa síðan verið hörð og gagnrýni sérfræðinga þung. Margt hefur vakið spurningar í þessu ferli, ekki síst að rannsóknastofa í Danmörku eigi að rannsaka sýnin. Ekki hefur verið útskýrt hvers vegna Landspítalinn má ekki greina þau eða hvort stjórnvöld leituðu yfirleitt til Landspítalans. Ég legg fram þessa beiðni ásamt 25 öðrum þingmönnum vegna þessarar sterku öldu í samfélaginu og legg til að skýrslan verði unnin af óháðum aðila. Skimun varðar heilsu og líf kvenna og mikilvægt er að traust ríki í garð heilbrigðiskerfisins og að sátt sé um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu. Þegar sérfræðingar kalla breytingar á borð við þessar aðför að heilsu kvenna þá ber Alþingi að hlusta. Þetta mál snertir víða sára taug og þessi vinna er þörf til að stuðla að því að sátt geti náðst um þessi mál og að konur geti treyst kerfinu.