151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

brottfall aldurstengdra starfslokareglna.

324. mál
[16:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um þingsályktunartillögu um brottfall aldurstengdra starfslokareglna, en flutningsmaður er hv. þm. Guðjón S. Brjánsson. Ég er með honum á þessari tillögu og get ekki annað en stutt hana heils hugar vegna þess að ég tel stórfurðulegt að við séum að setja inn í lög að þegar maður verður 65 ára eða 70 ára, eða á hvaða aldri sem er, eigi maður ekki og megi ekki vinna lengur þá vinnu sem maður stundar og vill halda því áfram. Auðvitað á að vera númer eitt: Viltu vinna áfram? Og númer tvö: Geturðu unnið áfram? Við eigum sérstaklega að taka á þessu núna vegna þess að alltaf er talað um að þjóðin sé að eldast og þar af leiðandi verði færri vinnandi hendur í framtíðinni. Það þarf ekki að vera ef við sjáum til þess að þeir sem vilja vinna geti unnið ef þeir vilja vinna. Eitt það ömurlegasta sem ég veit er þegar hindranir eru settar í veg fólks sem vill vinna eins og gert er gagnvart öryrkjum og gagnvart eldri borgurum. Það er ekki á neinn hátt eðlilegt að hafa hlutina svoleiðis. Það segir sig sjálft að hver vinnandi hönd skilar skatttekjum, bæði til sveitarfélaga og ríkisins. Þar af leiðandi er mun betra að sjá til þess að ryðja öllum hindrunum úr vegi þannig að það sé bara viljinn og getan sem ráði en ekki aldurinn. Þess vegna styð ég heils hugar þessa þingsályktunartillögu.