151. löggjafarþing — 62. fundur,  3. mars 2021.

birting viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga í dómum.

254. mál
[13:47]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Ég vil spyrja hæstv. dómsmálaráðherra um birtingu viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga í dómum. Fyrirspurnin hljóðar svo:

„1. Hvernig hyggst ráðherra bregðast við birtingu viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga í dómum?

2. Hvað hyggst ráðherra gera varðandi vinnslu og dreifingu fyrirtækja á viðkvæmum persónugreinanlegum upplýsingum sem hafa verið birtar í dómum?“

Staðreyndin er sú að dómstólar landsins, sem eiga að fylgja persónuverndarlögunum, hafa samkvæmt úrskurði Persónuverndar verið að birta upplýsingar sem eru persónugreinanlegar, í andstöðu við lög, á vef sínum og jafnvel þó að það sé leiðrétt síðar þá taka fyrirtæki í landinu, alla vega tvö sem ég veit af, dómana og vinna áfram með upplýsingarnar og selja aðgang að þeim.

Hvers vegna skiptir það máli? Það skiptir máli vegna þess að það er grundvallarréttur almennings að sækja rétt sinn. En ef fólk hræðist það að sækja réttinn — tökum dæmi af manneskju sem losnar úr ofbeldissambandi og vill kæra ofbeldið til lögreglu. Það fer fyrir dómstóla og þar koma fram upplýsingar sem ofbeldismaðurinn notaði gegn manneskjunni til að halda henni í ofbeldissambandinu. Þær eru birtar opinberlega í dómi og rata síðan inn í dómasafn einkafyrirtækja sem selja aðgang að því. Þetta hræðir fólk frá því að notfæra sér grundvallarréttindi sín, að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Þess vegna skiptir þetta máli. Umfram það á fólk einfaldlega rétt á sínu einkalífi, nema við stjórnmálamenn en það er önnur saga.

Þetta er spurningin, annars vegar hvað dómsmálaráðherra hyggst gera varðandi birtingu persónugreinanlegra upplýsinga í dómum og hins vegar ef einkafyrirtæki eru að vinna áfram með þær.

Hæstv. dómsmálaráðherra svaraði fyrirspurn minni, sem var skrifleg, 25. nóvember á þarsíðasta ári, 2019, og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Ráðherra lítur alvarlegum augum ef persónuupplýsingar í dómum og önnur vinnsla þeirra fer gegn lögum um persónuvernd.“

Nú er liðið eitt ár og tveir, þrír mánuðir. Hvað hyggst ráðherra gera til að bregðast við birtingu viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga í dómum og vinnslu einkaaðila á þeim viðkvæmu og persónugreinanlegu upplýsingum í framhaldinu?