151. löggjafarþing — 63. fundur,  3. mars 2021.

stjórn fiskveiða.

350. mál
[15:56]
Horfa

Flm. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006 (heildaraflahlutdeild). Frumvarpið hljóðar svo:

„1. gr.

Við 3. mgr. 13. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Kaupi einstakur aðili, sem fyrir á fiskiskip með aflahlutdeild, eignarhlut í útgerð, sem á fiskiskip með aflahlutdeild, skal leggja hlutfall kaupanda í aflahlutdeild seljanda saman við þær heimildir sem hann á fyrir. Telst sú heildaraflahlutdeild tilheyra kaupanda í skilningi 1. og 2. mgr. og sætir þeim takmörkunum sem þar er kveðið á um.

2. gr.

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Fari heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila yfir þau mörk sem kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. skulu aðilar gera ráðstafanir til að koma heildaraflahlutdeild þannig fyrir að hún rúmist innan lögbundinna marka fyrir lok fiskveiðiársins 2025/2026.“

Greinargerðin með frumvarpinu er svohljóðandi:

„Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2016, til frekari afmörkunar á því hvernig telja skal saman aflahlutdeild aðila með hliðsjón af ákvæðum um lögbundna hámarksaflahlutdeild, sbr. 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna.

Reglur um hámarksaflahlutdeild voru lögfestar með lögum nr. 27/1998, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Í greinargerð með frumvarpi að þeim lögum kom fram að meginmarkmið reglna um hámarksaflahlutdeild væri að einstök fyrirtæki gætu ekki orðið það stór að það beinlínis hamlaði eðlilegri samkeppni í útgerð.

Markmiðið með framlagningu þessa frumvarps er því að kveða afdráttarlaust á um að þegar einstakur aðili kaupir hlut í öðru útgerðarfyrirtæki sem á fiskiskip með aflahlutdeild, hvort sem keyptur er minni hluti eða meiri hluti, leggst hið nýja hlutfall aflaheimildar við það sem fyrir var í eigu kaupanda. Liggur þá strax ljóst fyrir hvort aflahlutdeild aðila fari umfram þau mörk sem sett eru í 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna. Sem dæmi má nefna að ef eigandi útgerðarfyrirtækis A sem á fyrir 5% aflahlutdeild kaupir 49% í útgerðarfyrirtæki B sem á alls 6% aflahlutdeild verður heildaraflahlutdeild útgerðarfyrirtækis A samtals þau 5% sem fyrir voru að viðbættum 49% af 6% aflahlutdeild seljanda, eða tæp 3%, þ.e. alls tæp 8%. Þeirri breytingu sem lögð er til með frumvarpinu er því ætlað að koma í veg fyrir að allt að helmingur allra aflaheimilda geti safnast á hendur eins aðila.

Aðila ber eftir sem áður, skv. 1. mgr. 14. gr. laganna, að tilkynna Fiskistofu um kaup á eignarhlut í lögaðilum o.fl. sem snýr að því að aðili auki við aflahlutdeild fiskiskipa í sinni eigu og að fyrirsjáanlegt sé að samanlögð aflahlutdeild fari umfram þau mörk sem sett eru með 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna.

Þá er lagt til að sett verði nýtt ákvæði til bráðabirgða sem mælir fyrir um aðlögunartíma fyrir þá aðila sem verða fyrir áhrifum af þessum breytingum og fara yfir lögbundið hámark aflahlutdeilda á grundvelli þeirra. Efni frumvarpsins getur haft íþyngjandi áhrif á atvinnustarfsemi sem byggð hefur verið upp í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma og þykir því rétt að gefa þeim aðilum rúman aðlögunartíma að breyttum reglum. Sambærilegt ákvæði var sett í lög þegar krókaaflahlutdeild var felld undir reglur um leyfilega hámarksaflahlutdeild.

Þeirri breytingu sem lögð er til með þessu frumvarpi er ætlað að skýrar frekar þær reglur sem gilda um hámarksaflahlutdeild hverju sinni í lögum um stjórn fiskveiða og taka af allan vafa um að við kaup einstakra aðila á hlut í öðru útgerðarfyrirtæki leggst hlutfall aflahlutdeildar í eigu seljanda við þá aflahlutdeild sem fyrir er hjá kaupanda. Eru breytingarnar því til einföldunar og ætlað að styrkja stoðir heilbrigðrar samkeppni í sjávarútvegi.“

Þannig lýkur þessari greinargerð og ég ætla að draga saman kjarna málsins á mannamáli, ef þannig má að orði komast. Við Íslendingar höfum á síðustu áratugum komið okkur upp fiskveiðistjórnarkerfi sem er alveg örugglega með því besta, ef ekki það besta, sem þekkist í heiminum. Við nýtum fiskstofnana okkar með sjálfbærum hætti eftir því sem vísindin geta best sagt til um og fáum út úr þessari auðlind hámarksarðsemi fyrir samfélagið allt. Þetta er atvinnugrein sem malaði okkur stöðugt gull í gegnum bankakreppu og Covid og hefur alltaf verið til staðar þegar önnur krosstré bregðast.

En ekkert kerfi er svo gott að ekki megi bæta það og hægt er að bæta ýmislegt í lögum um stjórn fiskveiða sem væri til þess fallið að auka samfélagslega sátt um kerfið. Á einu þessara atriða tek ég í því frumvarpi sem hér er til umræðu og snýr að samþjöppun á eignarhaldi í sjávarútvegi. Í nafni hagræðingar höfum við ákveðið að þola talsverða samþjöppun sem hefur skilað gríðarlegum ávinningi. Við sækjum nú aflann með miklu færri og fullkomnari skipum, miklu minni olíukostnaði og miklu minni tilkostnaði á öðrum sviðum en áður var. Sem dæmi má nefna að olíunotkun fiskiskipaflotans hefur minnkað um helming á rúmlega 20 árum.

En við viljum setja þessari samþjöppun einhver mörk, eins og ég rakti hér áðan, bæði af samkeppnisástæðum og til að viðhalda ákveðnum fjölbreytileika í útgerð. Í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða er sá áskilnaður að enginn einn aðili megi ráða yfir meiri aflaheimildum en sem nemur 12% af heildinni. Það er gott og blessað en gallinn er sá í lögunum að mínu mati að eignaraðild eins útgerðarfyrirtækis í öðrum telst ekki með nema hún fari yfir 50%. Með öðrum orðum gæti eitt fyrirtæki fræðilega séð ráðið yfir 12% aflaheimilda en síðan átt 49% í öllum öðrum fyrirtækjum á landinu sem fara með aflaheimildir. Það er ekki í anda laganna og á ekki að vera hægt. Til að taka af öll tvímæli um það atriði er þetta frumvarp lagt fram.

Sem betur fer virðast nú stórir aðilar í þessari atvinnugrein í vaxandi mæli átta sig á mikilvægi þess að ná sem mestri samfélagslegri sátt um fiskveiðistjórnarkerfið og þar skiptir samþjöppun á eignarhaldi máli. Nú stendur til að skrá eitt glæsilegasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Síldarvinnsluna, á hlutabréfamarkað og þessa frétt mátti lesa í Fréttablaðinu í síðustu viku, með leyfi forseta:

„Skráning á hlut í Síldarvinnslunni er fyrst og fremst til þess fallin að svara kalli tímans um dreifðara eignarhald í sjávarútvegi, segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sem er stærsti hluthafinn í félaginu. Umræða um breiðara og dreifðara eignarhald í sjávarútvegi hafi verið æ meira áberandi: „Menn þurfa ekki alltaf að vera fastir í sama farinu. Sala á hlut í Síldarvinnslunni er því tilraun til að mæta þeirri umræðu sem hefur verið um sjávarútveginn og ná fram betri sátt um greinina,“ segir Þorsteinn.“

Þessi orð forstjóra stærsta sjávarútvegsfyrirtækis á Íslandi, og eins af 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum í heiminum, ríma fullkomlega við efnið og andann í því frumvarpi sem við ræðum hér. Að lokum óska ég þess að frumvarpið gangi til 2. umr. og atvinnuveganefndar.