151. löggjafarþing — 63. fundur,  3. mars 2021.

uppbygging geðsjúkrahúss.

395. mál
[16:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og það er bara alveg skýrt. Það stendur hérna og það kemur líka alveg skýrt fram í máli hv. þingmanns að hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru að leggja það til. Þá segi ég bara: Ókei, ég hef skilning á því og ég get verið sammála ýmsu. En mín sýn væri sú að við þyrftum að byggja hér upp eitthvað sem væri geðspítali Íslands, en hann þyrfti ekki að vera undir rekstrareiningunni Landspítala og það er kannski sú hugmyndafræði sem ég er hér að tala fyrir. Ég er að tala fyrir spítala sem er að öllu leyti kostaður af ríkinu og veitir fyrirtaksþjónustu og er á fallegum og góðum stað sem getur nýst í meðferðarúrræðum spítalans. En ég er bara að velta því fyrir mér og það er í raun skoðun mín að ekki þurfi allir sjúkdómar að vera hýstir innan þess sem við höfum kallað Landspítalann. Við gætum verið með aðra minni fagspítala, ef svo má að orði komast.