151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

tilraunir til þöggunar.

[13:51]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill bara segja að vonandi talar enginn um þöggun í sambandi við þessa umræðu um fundarstjórn forseta sem hefur staðið alllengi, stærstur hluti þátttakenda talað tvisvar og forseti sýnt því umburðarlyndi að á köflum hefur það snúist um pólitísk mál en ekki í sjálfu sér fundarstjórnina. Að sjálfsögðu er þó meðferð trúnaðarupplýsinga og trúnaður í þingnefndum efni sem á heima í umræðum um störf þingsins.

Það var spurt hér af hverju forseti hefði brugðið á það ráð að senda formönnum fastanefnda og nefndarmönnum áréttingarbréf fyrir helgina þar sem farið var yfir trúnaðarreglurnar. Svarið er einfaldlega það að það var orðin opinber umræða um meðferð trúnaðarupplýsinga í tveimur þingnefndum á einum og sama sólarhringnum og ásakanir um möguleg brot og af þeim ástæðum þótti forseta ástæða til að senda þetta áréttingarbréf og slíkt hefur áður verið gert. Það var gert í von um það, sem kannski var óraunhæft af hálfu forseta, að góðar umræður færu fram um þetta vandasama mál þar sem forseti telur þær eiga best heima, þ.e. í nefndunum sjálfum.