151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

málaferli menntamálaráðherra gegn einstaklingi.

[14:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Já, það er einmitt þetta með verkaskiptingu milli ráðherra, sem er algerlega skýr. (HKF: Samræma stefnu.) Og eins og allir hv. þingmenn vita sem þekkja grundvallaratriði stjórnskipunarinnar bera einstakir ráðherrar ábyrgð á málum sem undir þá heyra, þar með talið mannaráðningum. Hv. þingmaður spyr hér hvort ég sé stolt. Já, ég er mjög stolt af árangri ríkisstjórnar minnar í jafnréttismálum. Fáar ríkisstjórnir hafa á undanförnum árum gert jafn mikið til þess að hreyfa við þeim málaflokki. Við höfum séð ótrúlegar réttarbætur, hvort sem er í málefnum hinsegin fólks, við endurskoðun jafnréttislaga eða breytta stjórnsýslu jafnréttislaga, sem ég heyrði einhverja hv. þingmenn tala hér um áðan að væri áferðarmál. Nei, það er svo sannarlega ekki. Þetta er grundvallarbreyting á stjórnsýslu jafnréttismála. (Gripið fram í.)Forvarnaáætlun. Ég er hér að fara yfir árangur (Gripið fram í.)ríkisstjórnar minnar í jafnréttismálum. (Gripið fram í.)Hv. þingmaður spyr hér um skoðun mína á máli sem heyrir undir annan ráðherra, sem ber ábyrgð á því máli, sem þekkir málavöxtu og tekur um það ákvarðanir samkvæmt stjórnskipun. Það ætti hv. þingmaður að vita. (Gripið fram í.)