151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

þróun verðbólgu.

[14:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður með að hv. þingmaður haldi uppi umræðu hér á þinginu um verðbólguna og ég get bara staðið við það sem ég hef áður sagt að það hefur ekki raungerst mikil verðbólga á Íslandi yfir þennan tíma sem hann vísar til. Mín svör hafa m.a. byggst á spám opinberra aðila, Seðlabankans, Hagstofunnar, markaðsaðila, á viðskiptum á markaði þar sem lesa má út verðbólguvæntingar markaðarins. Við höfum ekki séð almennt áhyggjur af verulegu verðbólguskoti. Það er hins vegar hárrétt hjá hv. þingmanni að við erum núna nokkuð yfir viðmiðunarverðbólgu fyrir Seðlabankann og 4% verðbólga er hærri verðbólga en við viljum sjá. Við viljum sjá verðbólguna nær 2,5%. Ég hef ekki yfirlit yfir þær hækkanir á verðtryggðum húsnæðislánum sem hv. þingmaður kallar eftir. En ég vek athygli á því að verulega stór hluti nýrra lána undanfarin ár hefur einmitt verið í óverðtryggðu formi.

Ég hlýt að beina sjónum að því sem mér finnst öllu skipta að spyrja um: Hvað veldur þeirri verðbólgu sem mælist? Hvað er það sem veldur þeirri verðbólgu? Má ég í því sambandi benda á hinar miklu launahækkanir sem orðið hafa að undanförnu og við hljótum að þurfa að spyrja okkur að hvaða marki þær knýja fram hækkanir á verðlagi að einhverju marki. Það er ekki merki um heilbrigða umræðu um þessi mál ef menn ætla að skjóta sér undan því að taka grundvallarumræðu um hvað það er sem leiðir til verðhækkana. (Forseti hringir.) Og það eru þá þessir liðir, sérstaklega húsnæðisverðið og launaþróun í landinu, sem við hljótum að staldra við.