151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

sóttvarnir.

[14:28]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Í upphafi þessarar viku nefndi hæstv. forsætisráðherra að 1. maí yrði í raun lítil breyting á þeirri sóttkví sem landið er í raun allt saman í þessa dagana. Það kom mér á óvart. Hæstv. ráðherra nefndi að vísu að það yrði tekinn upp litakóði, eins og rætt hefur verið um hérna í þinginu, en áfram yrðu hins vegar hin íslenska útfærsla sem er þrjár skimanir á landamærum. Þetta kemur mér á óvart, sérstaklega í ljósi þess að að mati stjórnvalda þá ganga bólusetningar afskaplega vel. Í því sambandi langar mig að nefna það að þegar 70 ára og eldri verða bólusettir er hættan á dauðsföllum af völdum þessa heimsfaraldurs orðin hverfandi.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvenær má búast við því að þetta markmið náist? Við stöndum frammi fyrir því að hættan á dauðsföllum verði hverfandi þegar 70 ára og eldri hafa verið bólusettir. Er það ekki alveg örugglega takmark sem við getum verið sammála um að menn verði að fara að miða við í öllum sóttvarnaaðgerðum og umræðu í þessum efnum?