151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[14:40]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég verð að fá að taka undir þessar athugasemdir sem komið hafa fram, vegna þess að það er mjög merkilegt að sjá hvernig allar tilraunir þingsins til aðhalds gagnvart framkvæmdarvaldinu eru kerfisbundið gerðar tortryggilegar. Maður veltir fyrir sér hvort það sé ekki hættulegt ef umræður um verkefni framkvæmdarvaldsins geta ekki farið fram án þess að tortryggnistimpill komi fram, hvort það sé ekki eitthvað sem valdi þinginu skaða bæði út á við og inn á við.

Það er líka merkilegt, verð ég að segja, þegar spurningar til ráðherra um þeirra störf breytast hratt í einhvern leik þar sem ráðherrar reyna að forðast alla ábyrgð og mála bara í staðinn upp einhverja glæsta mynd af sigrum sínum, (Forseti hringir.) hvort það sé ekki til marks um að ákveðinn valdhroki sé í gangi í samfélagi okkar og kannski ekki síst hjá ríkisstjórninni, og hvort það (Forseti hringir.) sé ekki gert til að veikja allar þær stofnanir sem byggja tilveru sína á því að fylgja (Forseti hringir.) eftir ákvörðunum sínum gagnvart valdinu.