151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

mótun klasastefnu.

522. mál
[16:29]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um mótun klasastefnu. Ég vil þakka ráðherranum fyrir skýrsluna og umræðuna sem hér er um klasastefnu. Hún er byggð er á þingsályktun sem hv. þm. Willum Þór Þórsson er fyrsti flutningsmaður að. Við í Miðflokknum erum öll á þessu máli þannig að við fögnum því. Ég verð að segja eins og er að ég fylgjandi öllu sem eflir atvinnu og uppbyggingu, ég tala nú ekki um ef það eflir byggðaþróun. Við landsbyggðarþingmennirnir tölum oft um eflingu byggðaþróunar á landsbyggðinni. Allt sem lýtur að lífi okkar mannanna byggist á atvinnu. Það er nú bara þannig.

Ég er nú svolítið forn í hugsun og hef verið að reyna að átta mig á hvað klasi er og var að gúgla það hér áðan mér til frekari glöggvunar. Það hefur líka komið fram í ræðum og þessi skýrsla segir manni að svona starfsemi getur stuðlað að uppbyggingu í atvinnumálum og nýsköpun. Það er mjög mikið fagnaðarefni.

Hér hefur komið fram að okkur hefur ekki gengið sem skyldi, eins og mikið hefur verið rætt, með uppbyggingu iðn- og tæknináms nema að takmörkuðu leyti. Þar þurfum við að taka okkur hressilega á. Mikið vantar í þau störf vegna þess að þróun í tækniheiminum er það hröð.

Af því að ég minnist á landsbyggðina þá er eitthvað sem heitir efling, uppbygging og stuðningur við brothættar byggðir. Mér hefur alltaf fundist orðalagið brothættar byggðir svolítið niðrandi, ekki uppbyggilegt. Ég hefði frekar viljað kalla það byggðir í sókn. Það er meiri hvati í því en að tala um brothættar byggðir. Líka að einskorða skilgreininguna við byggðarlög sem eru með 500 manns eða færri, það eru fleiri byggðir en fámennar sem eru í vandræðum. Ég vildi bara að það kæmi hér fram.

Eins og ég segi þá fagna ég þessari skýrslu. Ég vona að við festum okkur ekki of mikið í einhverjum hugtökum sem líta vel út á prenti en framkvæmum heldur hlutina hratt svo uppbygging atvinnuvega og nýsköpunar megi ganga sem hraðast.