151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

barnalög.

11. mál
[17:27]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Á meðan ég fagna þessu frumvarpi heitt og innilega tek ég heils hugar undir fyrirvara og breytingartillögu minni hluta nefndarinnar um málefni fatlaðra barna. Auðvitað hefði sú vinna átt að eiga sér stað samhliða. Það er bagalegt að það sé augljós eftiráhugsun að fara eigi í þetta. Auðvitað á það að vera alveg sjálfsagt mál. Það kemur fyrir ítrekað hér á þingi að þeim hópum sé einhvern veginn gleymt sem síst skyldi. Við erum aðilar að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og fleiri mikilvægum mannréttindasáttmálum og stundum vantar bara upp á að þau gleraugu séu á nefinu þegar sest er niður til að semja frumvörp. En vonandi verður gerð bragarbót á þessu máli.

Málið er í grunninn mjög gott, virðulegi forseti. Það er mikilvæg réttarbót. Það er líka jafnréttismál. Staðreyndin er sú að undir núverandi fyrirkomulagi hallar oftast á feður. Við ræðum mikið um jafnrétti kynjanna, jafnrétti mæðra og feðra og þeirra hópa sem sinna börnum og á vinnumarkaðnum og fleiri stöðum í samfélaginu. Til að vera trúverðug í því þurfum við líka að passa upp á hluti eins og þennan. Það getur verið mjög særandi fyrir fólk að rekast á veggi kerfislægrar útilokunar. Undir núverandi fyrirkomulagi er það bara þannig. Það er auðvitað alveg úrelt sjónarmið að alltaf sé til staðar einhvers konar „alfa“-foreldri, að annað foreldrið sé einhvern veginn meira foreldri en hitt. Auðvitað þekkjum við að í samfélagsmenningunni er rótgróin hugsun um að oftast sé það móðirin. Því þarf að breyta og þetta mál fer aðeins í þá átt.

Þó að samband foreldra gangi einhverra hluta vegna ekki upp og fólk sjái ekki annað í stöðunni en að skilja er það í langflestum tilfellum svo að fólk hefur jú áhuga á að skilja við makann en ekki áhuga á að skilja við börnin sín. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að þetta skuli ekki hafa verið lagað fyrir lifandis löngu. Undir núverandi kerfi er það svo að sjálfkrafa, jafnvel þó að fólk sé með sameiginlegt forræði, missir annað foreldrið réttindi gagnvart þátttöku í dagsdaglegu umönnunarhlutverki og í tilveru barns síns. Ég tek sem dæmi Heilsuveru. Ef foreldri sem deilir ekki lögheimili með barni sínu þarf að panta læknisskoðun er ekki flipi á síðunni fyrir barnið jafnvel þó að um sameiginlegt forræði sé að ræða. Auðvitað er það særandi og getur jafnvel í einhverjum tilfellum komið í veg fyrir að fólk treysti sér til að skilja.

Þetta er frábært mál. Ég skil ekki alveg af hverju það tekur ekki gildi fyrr en eftir tæpt ár. Það er svolítið langur tími. En þetta er breyting í átt að sjálfstæði fólks sem foreldra. Þegar við ræðum hluti eins og fæðingarorlof, feðraorlof og mæðraorlof, tölum við einmitt oft um mikilvægi sjálfstæðis foreldris í hlutverkinu gagnvart barni sínu, að foreldri geti sinnt öllum þörfum barns síns og að báðir foreldrar hafi aðgang að öllu. Þetta er gott mál og þetta er jafnréttismál. Ég fagna því heitt og innilega en tek enn og aftur undir orð hv. þingmanna sem hafa sett fyrirvara og gert breytingartillögu við málið.