151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

barnalög.

11. mál
[17:39]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Virðulegur forseti. Það er búið að vera mjög skemmtilegt að hlusta á hv. þingmenn tala um hitt og þetta sem viðkemur réttindum barna og því hvernig kerfið virkar, hvað við þurfum og getum og viljum gera til að breyta og bæta. Mér var hugsað til þess eftir orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, hvort við ættum ekki bara að brenna allt kerfið og búa til nýtt, ráða sérfræðinga sem búa til módel að því hvernig þessi batterí geta unnið saman. Við erum alltaf að grafa okkur dýpra niður í einhverjar holur. Svo erum við komin með frábæra lausn en þá er bara hugsað í næsta ráðuneyti: Ó nei, nú eruð þið búin að koma okkur í bobba. Þetta er pæling og ég held að fleira fólk hér á Alþingi ætti kannski að hugsa: Hvernig getum við lagað þetta þannig að til framtíðar sé ekki alltaf sama holan?

Aftur að frumvarpinu og breytingartillögunni. Ég stend að breytingartillögu með hv. þingmönnum Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur og Guðmundi Andra Thorssyni því að okkur finnst mjög augljóst að tryggja eigi rétt fatlaðra barna jafnmikið og annarra barna. Réttur þeirra er náttúrlega sá að hafa þá þjónustu sem er þeim nauðsynleg til að þau geti búið við þau lífsskilyrði sem öll börn eiga skilið. Ég er bjartsýn á að það muni ganga upp og ég er bjartsýn á að breytingartillagan verði samþykkt og að farið verði í að endurskoða regluverk og reglugerðir innan mismunandi ráðuneyta og finna út hvernig hægt sé að tryggja þessa þjónustu strax. Hún á að vera í boði í janúar 2022, ef ég skildi það rétt.

Ég vil taka undir orð hv. þingkonu Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur. Okkur finnst leiðinlegt að þetta hafi ekki verið gert samhliða og skiljum ekki alveg af hverju það var ekki gert. Það var nógur tími til að gera það samhliða. Búið var að vekja athygli á þörfinni á að gera það fyrir nógu löngum tíma til að það hefði allt átt að vera mögulegt. Það er bæði pínu svekkjandi og sorglegt að nefndin þurfi samt að gera breytingartillögu af því að ekki var hægt að gera þetta samhliða. Þetta er smátt atriði í stóra samhengi ríkisrekstrar og því sem við gerum hér, en þetta er náttúrlega gífurlega stórt atriði í hversdagslegu samhengi fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra og það er mjög nauðsynleg bót — ég veit að þingmálið er íslenska, ég ætla ekki að sletta á ensku, afsakið, virðulegur forseti — að vera með réttindi fatlaðra barna alveg á sama „leveli“, á sama stigi og barna sem eru ekki með fatlanir. Það var ekki meira í dag um þetta mál nema að við ættum kannski bara að brenna kerfið og byggja það upp á nýtt.