151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

ákvörðun um áfrýjun til Landsréttar.

[12:35]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég get ekki séð að ráðherra sem hlotið hefur dóm fyrir brot gegn jafnréttislögum geti staðið hér í pontu og talað um að faglega hafi verið staðið að málum. Dómurinn snýst einmitt um að ekki var staðið faglega að málum. Það er kjarni málsins. Ráðherra lýsir því yfir núna að hún hafi farið gaumgæfilega yfir dóminn á þeim örfáu klukkustundum sem liðu og haft samráð við settan ríkislögmann þar um. Ég spyr hana: Var það lagalegt álit setts ríkislögmanns að efni og ástæða væri til að fara af stað með þetta mál til Landsréttar?

Þegar íslenska ríkið stendur í málaferlum á það að vera vegna þess að það eru einhverjir hagsmunir að baki fyrir íslenska ríkið, fyrir íslenskan almenning. Ákvörðun sem byggir á persónulegum skoðunum ráðherra þjónar allt öðrum og verri tilgangi. Fyrri ummæli ráðherrans hér, um að hún eigi sama rétt og aðrir einstaklingar á að leita réttar síns, eru sérstök. (Forseti hringir.) Þessi einstaklingur, ólíkt öllum öðrum, getur beitt íslenska ríkinu fyrir sig í málaferlum. (Forseti hringir.) Þess vegna skiptir aðdragandi ákvörðunar máli.

Ég minni á að í lögum um Stjórnarráð Íslands (Forseti hringir.) segir að ráðherra skuli leita álits ráðuneytis til að tryggja að ákvarðanir og athafnir séu lögum samkvæmt. Það eru hin almennu sjónarmið í þessu máli.