151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

varnarmálalög.

485. mál
[13:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að okkur hv. þingmann greini á um Atlantshafsbandalagið tel ég mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að taka þátt í fjölþjóðasamstarfi sem því, sem og reyndar öðrum fjölþjóðasamböndum eins og Evrópusambandinu, en látum það liggja á milli hluta núna þó að vissulega væri fróðlegt að heyra afstöðu þingmannsins til Evrópusambandsins við betra tækifæri. Þar erum við að tala um félagslegt og efnahagslegt samráð og samvinnu en Atlantshafsbandalagið snýst um varnarsamstarf og er fyrst og fremst varnarbandalag.

Ástæða þess að ég kem hingað upp er sú að ég heyri réttilega þingmanninn flytja þetta mál ítrekað, mig minnir í þriðja sinn núna, annað sinn, já. Við fyrsta flutninginn sagði hv. þingmaður m.a. að það væri með mikilvægari málum Vinstri grænna að fá þetta í gegn. Mér finnst þessi nálgun áhugaverð. Ég lýsti því yfir í gær. Ég tel eðlilegt að við ræðum það og förum vel yfir það hvort þingið eigi ekki einmitt að koma að því þegar umfangsmiklar breytingar, framkvæmdir eða athafnir fara fram á varnarsvæðinu í skjóli varnarsamningsins. Mér finnst það eðlileg þróun í lýðræðisríkjum. Við getum skilið vel þessa nálgun 1949 en núna árið 2021 finnst mér eðlilegt að lýðræðislegur meiri hluti segi til um hver framvindan eigi að vera.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hefur hann reynt að ná samkomulagi við samstarfsflokkana? Hvernig taka samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn þessu máli? Er hv. þingmaður reiðubúinn til að láta reyna á þann nýjan meiri hluta núna á þessu þingi til að koma þessu máli í gegn, einu því mikilvægasta að hans sögn, til að fá það samþykkt?