151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[15:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að halda ræðu um þetta mál en hv. 5. þm. Reykv. s., Brynjar Níelsson, særði mig hingað upp í pontu með ræðu sinni áðan. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég sat niðri í þingflokksherbergi og hlustaði í mesta sakleysi á ræðuna og hugsaði með mér og setti á Twitter hvað mér fyndist erfitt þegar ég væri sammála niðurstöðu einhvers sem færði þó svo vond rök fyrir málinu. Mér finnst það oft koma upp þegar við ræðum frelsið hér á Alþingi og víðar. Það vill nefnilega þannig til að ég styð þetta mál og ekki nóg með að ég styðji málið heldur einnig önnur sambærileg. Ég hef sjálfur lagt fram mál um að heimila heimabruggun. Meira um það síðar. Sömuleiðis styð ég að smásala áfengis verði færð í hendur einkaaðila. Ég hef hins vegar ekki það mikla ástríðu fyrir þeim tiltekna anga málsins að ég myndi nenna að leggja fram frumvarp eða vinna að því að einhverju ráði. En ég myndi ýta á græna takkann ef mér byðist það einhvern tímann á hinu háa Alþingi.

Þegar við tölum um áfengi tel ég að við gleymum oft ákveðnum andlegum þætti við þetta allt saman, andlegum þætti sem ég tel eiga skyldleika við trúarbrögð, en það er að áfengisneysla er vímuefnaneysla og víma og sóknin í vímu er að hluta til persónulegs eðlis. Þegar við tökum fyrir afskaplega persónuleg mál á Alþingi, eða í stjórnmálalegu tilliti, fer umræðan almennt pínulítið í hnút. Þetta á við um trúarbragðaumræðu, vímuefnaumræðu og meira eða minna allt sem kemur börnum við eða barnauppeldi eða hagsmunum barna. Eðlilega tekur fólk því mjög persónulega og hefur þar af leiðandi mjög sterkar tilfinningar til allra mála sem varða þá hagsmuni. Það á einnig við um hluti eins og kynhegðun, kynlíf, kyneinkenni og þess háttar. Það er ekkert skrýtið að í umræðu um slík málefni brjótist fram ákveðin fagleg sjónarmið, pólitísk sjónarmið og persónuleg sjónarmið og blandan af því öllu er ekkert endilega mjög gegnsær kokteill, ef svo mætti að orði komast.

Þegar við tölum um frelsið, eins og ég ætla að ræða hér aðeins, hættir okkur frelsissinnum — sem ég veit að ég er og hv. þm. Brynjar Níelsson og fleiri eru — til að gefa okkur að frelsið sem við þráum svo heitt sé skaðlaust. Við höfum tilhneigingu til að gefa okkur það vegna þess að það er rosalega auðvelt fyrir okkur ef það er skaðlaust. Ef við getum aukið frelsið án þess að taka áhættu, án þess að fórna neinu fyrir það, er auðvelt að styðja það og mögulega auðvelt að sannfæra annað fólk um hið sama. Málið er bara að frelsið er ekki ókeypis. Það kostar. Það kostar fórnir. Ef við höfum tjáningarfrelsi, sem ég styð mest af öllum hér inni á þingi eftir því sem ég fæ best séð, kostar það að fólk getur sagt eitthvað sem okkur er illa við. Við þurfum bara að búa við það en það þýðir ekki að við þurfum að sætta okkur við það. Við gætum viljað svara í sömu mynt og segja ljóta hluti, við gætum viljað gagnrýna það mjög harðlega, við gætum jafnvel viljað úthýsa ummælunum af okkar eigin vef eða okkar eigin vettvangi á einhvern hátt því að tjáningarfrelsið felur jú líka í sér að hver vettvangur getur sett sér sínar eigin reglur. Það er hluti af því.

Ef við búum við frelsi til að neyta áfengis þýðir það að við þurfum að axla einhvers konar ábyrgð á því. Við þurfum að tryggja að hegðun okkar undir áhrifum áfengis brjóti ekki á réttindum annarra. Við gætum þurft að bregðast við þeirri skaðlegu hegðun sem áfengi getur ýtt undir, t.d. með forvörnum eða jafnvel einhvers konar takmörkunum. En höfum alveg á hreinu að þegar við aukum frelsið gerum við það stundum á kostnað sjónarmiða eins og lýðheilsu. Við frelsisunnendur á þingi þurfum að geta sagt það berum orðum og með opin augun að við séum til í það.

Ég vil nefna tiltekin dæmi. Áðan var sagt, ranglega samkvæmt mínum heimildum, að sjúkdómur eins og skorpulifur hefði ekki aukist á Íslandi frá því að bjórinn var heimilaður. Það er rétt að núna heyrist enginn vilja banna bjórinn aftur, meira um það síðar ef ég hef tíma, en hins vegar er rangt að skorpulifur hafi ekki aukist. Hún hefur aukist, virðulegi forseti. Og við þurfum, upplýst og með opin augun, að segja að við séum til í það vegna þess að við metum frelsið það mikið að við séum reiðubúin að fórna einhverju fyrir það. Ég skal standa hér og segja það. Fyrir mér er frelsið eitthvað sem krefst í sjálfu sér ekki réttlætingar, ekki frekar en að vilja líf eða hamingju. Ég set þessi þrjú atriði reyndar svolítið mikið í sama flokk; líf, hamingju og frelsi. Ef ég þyrfti að velja á milli væri ég ekki alltaf viss. Það færi svolítið eftir aðstæðum, hugsa ég. Frelsið er í því mengi í mínum huga. Frelsið er gott í eðli sínu. Ég vil frelsið af því bara, alveg eins og ég vil hamingjuna af því bara og ég vil lifa af því bara. Ég færi engin rök fyrir því önnur en þau að þannig ætla ég að hafa það, og bjóði heimurinn mér hvað sem hann vill til að reyna að stöðva mig.

Sömuleiðis hrjáir stundum sá misskilningur okkur frelsisunnendur að ef við viljum auka frelsi skipti kannski engu máli hvernig það sé gert. Auðvitað skiptir máli hvernig það er gert. Við getum ekki einfaldlega aukið frelsið og ekki búist við neinum neikvæðum afleiðingum af því. Það er ekki svo einfalt að einfaldlega sé ákveðinn hópur í samfélaginu sem misnotar áfengi en meiri hlutinn geri það ekki. Það er ekki svo einfalt. Ég skil alveg að það geti litið þannig út en þetta er flóknara en það. Ég ætla að nefna tiltekna flækju þegar kemur að öðrum vímuefnum sem eru morfínskyld efni og amfetamínskyld efni. Ég veit svo sem ekki hvort þetta séu læknisfræðilega hárnákvæm hugtök hjá mér en þetta eru alla vega efni sem eru náskyld eða þau sömu og eru misnotuð af fólki í samfélaginu með einhverjum hætti. Þau eru keypt á hinum svokallaða svarta markaði, þ.e. óskráðum markaði, og neytendur misnota þau. Tiltölulega nýlega var tekin upp samræmd skráning hjá læknum sem gefa út lyfseðla fyrir þessum lyfjum þannig að ekki var lengur hægt að fara á milli lækna með sama vandamálið og fá margsinnis skammtinn sem raunveruleg þörf var á. Sjálfsagt dró það úr neyslu, ég hef reyndar ekki flett því upp nýlega verð ég að viðurkenna, og sjálfsagt hafði það einhver jákvæð áhrif á nýliðun í þeim hópi sem myndi annars nota þessi efni. En staða hópsins sem misnotar þau áfram, sem er langt leiddur, versnar til muna. Jafnvel þótt við tökum skref sem geta þótt jákvæð í heildina geta þau á einhvern annan hátt verið neikvæð og skref sem geta aðstoðað okkur við að ráða bug á einum hluta vandans geta haft þveröfug áhrif á annan hluta hans. Þannig eru vímuefnamál, virðulegi forseti, og þannig er mannlegt samfélag almennt. Það er flókið. Það er skrýtið. Það er ekki svona einfalt og augljóst hvaða leið er best, sama hversu heitt við elskum frelsið og hversu réttilega.

Áðan var nefnt að enginn vildi fara aftur til þess að banna bjórinn og ég er sammála því. Ég sé engan heimta það. Samt sem áður verðum við að átta okkur á því að þótt verstu spárnar hafi ekki ræst — eins og þær að menn myndu setja bjór út á seríós eða eitthvað því um líkt, sem var fráleit hugmynd þá og er reyndar að mínu mati fráleit hugmynd í dag — og það er rétt að þær spár hafa sem betur fer ekki ræst, hefur neysla aukist mjög mikið eins og spáð var. Það er alveg rétt. Vandamál eins og skorpulifur hefur aukist. Það er alveg rétt. Samt viljum við ekki fara til baka. Hvers vegna er það, virðulegi forseti? Vegna þess að þegar við, hið meinta klára fólk á Alþingi, ætlum að setjast niður og taka ákvarðanir fyrir alla aðra í samfélaginu kemur í ljós að við eigum við einhvers konar kerfi. Við eigum við samfélagið sem einhvers konar kerfi, jafnvel einhvers konar borðspil eða tölvuleik. Við ætlum að haga gildunum í því borðspili eða þeim tölvuleik þannig að samfélagið komi út á þann hátt sem við teljum skynsamlegt. Vandinn við þá nálgun er — og þetta er vandi stjórnmálanna í eðli sínu og m.a. ástæðan fyrir því að miðstýring er svo slæm og oft heimskuleg — að samfélagið er flóknara en það. Samfélagið er samansafn af einstaklingum og einstaklingar í samfélaginu eru bara mjög oft til í að taka áhættu með heilsu sína og fé sitt til að upplifa tímabundna skemmtun. Fólk gerir það reyndar í hvert einasta sinn sem það ákveður að fá sér áfengi. Kannski er tímabundin skemmtun í því en fólk veit að það kostar peninga sem það gæti notað í eitthvað skynsamlegra ef það hugsaði hlutina til enda. Það veit að áfengi hefur neikvæð áhrif á heilsuna en gerir það samt. Þannig er mannskepnan, virðulegi forseti. Hún er ekki leikmaður í borðspili okkar stjórnmálamannanna. Einstaklingurinn er með sjálfstæðan vilja sem er einfaldlega ekki sammála okkur hér sem ætlum að hanna hin mikla leik samfélagsins. Sem frelsisunnanda finnst mér það persónulega fallegt að almenningur geti hagað sér öðruvísi en okkur hér gæti þótt skynsamlegast. Ég er engan veginn á þeirri skoðun að það sé hlutverk okkar að hanna þann ramma utan um samfélagið að allt sé í skínandi grænum og fallegu litum sem við teljum samræmast einhverjum heildarmarkmiðum borðspilsins samfélagið. Að því leyti er ég sammála frelsisunnendum sem annars fara með rökvillurnar fyrir frelsismálstaðinn.

Þá vil ég á nokkrum lokamínútum fara aðeins út í handverksbrugghúsin því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi þau áðan. Handverksbrugghúsin eru m.a. til komin vegna þess að við lögleiddum bjór eða heimiluðum hann á sínum tíma. Og það er gott. En ég vil líka minna á að handverksbrugghúsin eru til komin vegna þess að einstaklingar úti í samfélaginu hafa, þvert á gildandi lög, hafið heimabruggun og gert tilraunir með hina og þessa bjóra. Ekki þarf að leita langt til að sjá iðnaðinn sem hefur sprottið upp í kringum heimabruggun, sérstaklega síðustu ár. Ég nefni það vegna þess að þegar kemur að áfengismálefnum finnst mér áhugavert hvað áhersla flokkanna er ólík. Ég myndi styðja mál sem setti áfengi í smásölu til einkaaðila en, aftur, ég hef ekki nógu mikinn áhuga á því. Ég hef ekki nógu mikla ástríðu fyrir þeim tiltekna anga til að vinna að slíku frumvarpi vegna þess að það er bara eitt atriði. Fyrir mér er aðalatriðið frelsi einstaklingsins, frelsi einstaklingsins til að vera í friði fyrir yfirvöldum sem sífellt segja honum hvernig hann eigi að haga sínu eigin lífi, í sínu eigin húsi. Þess vegna nálgast ég áfengislöggjöfina á aðeins annan hátt, alla vega hvað varðar forgangsröðun, þann að ég vil afnema bann við heimabruggun þar sem fólk bruggar áfengi heima hjá sér til eigin nota, ekki til dreifingar, ekki til sölu, ekki til að gefa börnum eða neinum öðrum, heldur sjálfu sér. Mér finnst að það ætti að vera fyrsta skrefið í frelsisvæðingu í áfengismálum sem og öðrum; einstaklingurinn.

Ég skil alveg að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu með smásölulög á heilanum. Kannski er það vegna þess að skjólstæðingarnir eru aðrir, ég veit það svo sem ekki. Sömuleiðis finnst mér áhugavert að þingmenn Framsóknarflokksins komi með þetta ágæta mál sem snýr auðvitað að hagsmunaaðilum, mikið til á landsbyggðinni, sem lenda í vandræðum með gildandi fyrirkomulag í sambandi við handverksbrugghúsin. Það eru allt lögmæt sjónarmið. Það er allt saman ágætt mál að mínu mati. En mér finnst áhugavert að skoða forgangsröðunina.

Síðast en ekki síst verð ég að nefna vímuefnamál almennt því að áfengi er vímuefni og alveg jafn mikið dóp og önnur vímuefni á Íslandi. Mér finnst ótrúlega skrýtið og stundum fyndið hvernig áfengi er einhvern veginn sér á báti og ekki talið með ólöglegum vímuefnum, eins og áfengi sé eitthvað annað en enn eitt vímuefnið. Það er ekkert annað en enn eitt vímuefnið, nema það er óvenju skaðlegt, virðulegi forseti. Það er helsta séreinkenni áfengis. Mér finnst tómt mál að tala um frelsi í sambandi við áfengis- eða vímuefnamál fyrr en við erum hætt að refsa vímuefnaneytendum. Þökk sé málflutningi Pírata árið 2013, þegar það þótti róttækt að stinga upp á því, að núna virðist vera meiri hluti á Alþingi fyrir því að afnema refsingar við neyslu vímuefna. Það er gott. Ég hlakka til að greiða atkvæði með því máli þegar það kemur fram.

En, virðulegi forseti, mér finnst ótrúlega skrýtið að standa hér sem þingmaður Íslendinga og hlusta á ræður um frelsi þegar annað eins grundvallaratriði er ekki einu sinni komið á hreint. Mér finnst það fáránlegt, virðulegi forseti, ég verð bara að segja eins og er. Að því sögðu styð ég málið. Ég styð frelsið, líka þegar það kostar. En það skiptir máli hvernig við breytum hlutunum og það skiptir máli að við höfum augun opin þegar við veljum á milli frelsis og lýðheilsu.