151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

strandsiglingar.

[13:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér skilst að strandsiglingar hafi hafist aftur að einhverju marki á Íslandi, en á sínum tíma voru ríkisstyrkir til þeirra afnumdir með þeim spádómi að samkeppnin myndi leysa vandamálin. Hér er um að ræða efni þar sem erfitt er að segja til um nákvæmlega hvort um gott samspil ríkisinngrips og einkamarkaðarins sé að ræða. En ég hefði haldið að miðað við orðræðuna sem verið hefur árum saman, gott ef ekki í tvo áratugi eða eitthvað svoleiðis, væri meiri áhersla á þinginu á að koma strandsiglingum á í kringum allt landið til þess sérstaklega að styrkja byggðirnar í landinu. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi skoðað eða hafi einhverjar fréttir að færa um hvort áform séu um að styðja við strandsiglingar á Íslandi sérstaklega í þeim tilgangi. Oft eru nefnd áhrifin sem flutningar á vörum yfir landið hafa á vegina, og svo umhverfissjónarmið og þess háttar. Ástæðan fyrir því að ég spyr er ekki síst sú að maður heyrir mikið af kvörtunum frá ákveðnum byggðarlögum í landinu um að ef strandsiglingar væru meiri og væru notaðar í þeim beina tilgangi að efla sérstaklega sjávarbyggðir þá hefðu þau pláss kannski fleiri tækifæri til að nýta stöðu sína og efla þá framleiðslu sem þar á sér stað.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hver er staðan á því máli? Hverjar eru hugmyndir hæstv. ráðherra í þeim efnum og hvaða framtíðarsýn getum við búist við? Það virðist ekki vera mikill ágreiningur um það, þegar fólk ræðir um það í öðru samhengi en út frá samkeppnissjónarmiði eða hlutverki ríkisins, að strandsiglingar séu í grunninn góð hugmynd.