151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

skimun á landamærum.

[13:24]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns, um það að gera þetta hratt og vel sem lýtur að breytingum á landamærum, þá háttar þannig til með allar breytingar á landamærum að um sumar þeirra gildir að það þarf að tryggja forritun og það þarf að tryggja undirbúning, það þarf að tryggja upplýsingar til flugrekstraraðila o.s.frv. Við gerum þetta eins hratt og hægt er og ég vil fullvissa hv. þingmann um það.

Hv. þingmaður spyr líka um AstraZeneca-bóluefnið sem er verið að skoða hjá Evrópsku lyfjastofnuninni. Á fimmtudaginn, þ.e. ekki á morgun heldur hinn, mun Evrópska lyfjastofnunin skila endanlegu áliti á því hvort hún telur óhætt að bólusetja með AstraZeneca eitthvað áfram. Við höfum gert ráð fyrir því og sóttvarnalæknir hefur sagt að honum finnist líklegt að við fylgjum þeirri leiðsögn hérlendis. Við höfum ekki viljað fara þá leið að fólk velji sér bóluefni af því að best fer á því að það sé ákvörðun sóttvarnalæknis hvaða bóluefni er notað í hverju tilviki og ég geri ráð fyrir að svo verði áfram.