151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[13:52]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa sérstaka umræðu. Hún er mikilvæg og hún er brýn. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kemur inn á að þessi heimsfaraldur leggst með ólíkum hætti á hópa í íslensku samfélagi, hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki. Margir verða ekki fyrir miklum áhrifum, en sá hópur sem verður fyrir mestum áhrifum eru einstaklingar sem misst hafa vinnuna og fjölskyldur þeirra. Besta leiðin til þess að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi er að skapa störf og það er það sem við höfum verið að undirbúa. Við kynntum núna í síðustu viku stærstu hvataaðgerðir sem gripið hefur verið til vegna stuðnings við sköpun starfa. Úrræðið sem hv. þingmaður vitnaði hér til, varðandi það sem gert var í efnahagshruninu, er úrræði sem hefur verið til staðar allt frá þeim tíma og er til staðar, en við tökum það hins vegar núna og skölum það mjög hressilega upp.

Af því að hv. þingmaður talaði um að framlengja bótarétt og atvinnuleysisbótatímabil þá erum við í rauninni að framlengja atvinnuleysisbótatímabil í formi atvinnutryggingar í samstarfi við sveitarfélögin. Við erum að fara í samstarf við sveitarfélögin um að tryggja einstaklingum störf sem lokið hafa bótarétti sínum. Við miðum við að sveitarfélag fái stuðning upp á 472.000 kr. til þess að skapa störf fyrir viðkomandi einstakling, á meðan strípaðar bætur eru rúmlega 300.000 kr. og fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi á bilinu 160.000–220.000 kr. Það er besta leiðin til að koma hagkerfinu af stað. Við förum þarna bestu leiðina til að tryggja einstaklingum hærri framfærslu. Það er besta leiðin til að koma fólki í virkni og það er besta leiðin til að koma hagkerfinu af stað og það er líka besta leiðin til að tryggja auknar tekjur sveitarfélaganna vegna þess að þau fá líka hærri tekjur af því að skapa þessi störf. Ég bind miklar vonir við að þetta muni lukkast vel. En það ríður á að fyrirtæki, sveitarfélög, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök komi með okkur í þessa vegferð og nýti sér hvataaðgerðir sem verið var að kynna í þeim tilgangi að skapa störf, vegna þess að það er ekki þannig að ráðherrarnir búi til störfin. Þeir sem eru atvinnurekendur, þeir sem eru þegar með fólk í ráðningarsambandi, búa til störf. Þessi hvataaðgerð er með þeim stærstu sem ráðist hefur verið í og er til þess fallin að skapa slík störf.

Hv. þingmaður víkur að efnahagslegum afleiðingum hjá þeim heimilum sem glíma við langtímaatvinnuleysi. Þar höfum við sannarlega bæði félagslegar afleiðingar og efnahagslegar. Ég vil segja um félagslega þáttinn að við höfum í hverju einasta skrefi verið með ýmsar félagslegar aðgerðir til þess að grípa inn í. Ég svaraði fyrirspurn frá hv. þingmanni áðan sem laut að ráðgjafarstofu innflytjenda, sem er hluti af félagslegu viðbragði. Við höfum stutt ríkulega við frjáls félagasamtök sem koma með margvíslegum hætti að félagslegum viðbrögðum í heimsfaraldri eins og Covid. Þegar kemur að efnahagslegum viðbrögðum höfum við gripið inn í með framlengingu tekjutengda tímabilsins, með hækkun greiðslna til atvinnulausra með börn og hækkað þar álag og við erum enn að vakta það. Við erum að klára að móta tillögur sem munu halda utan um þennan hóp af því að það er styrkur þessarar ríkisstjórnar að bregðast við hverju sinni, að fylgja heimsfaraldrinum eftir. Þess vegna erum við núna að fara í það stærsta starfaátak sem ráðist hefur verið í, mestu hvataaðgerðir sem gripið hefur verið til til að skapa störf. Það er af því að við erum að fylgjast með faraldrinum. Við erum að fylgjast með hvernig og hvenær atvinnulífið stígur inn og hvernig við getum klárað þennan leik og brúað bilið þar til atvinnulífið fer af stað. Við væntum þess að það muni gerast eftir því sem hærra hlutfall þjóðarinnar fær bólusetningu og hægt er að létta meira á sóttvarnaaðgerðum.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa brýningu. Við munum áfram standa vaktina. Við hlustum á góðar tillögur, hvaðan sem þær koma, og erum tilbúin að vinna að þeim í samstarfi við alla hlutaðeigandi aðila.