151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda.

[14:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um atvinnuleysi. Við eigum að hafa mestar áhyggjur af þeim sem eru dottnir út af atvinnuleysisskrá. Þeirra bíður ömurleg tilvera vegna þess að þeir eru settir á félagsbætur. Á félagsbótum tekur við það sem við köllum makaskerðingar. Þar af leiðandi verða þessir einstaklingar háðir maka sínum. Það er ömurlegt að við skulum enn vera með þannig kerfi að við skulum leggja það á einhvern að hann sé háður tekjum maka síns til að sjá sér farborða. Síðan tekur sennilega við örorka. Við erum með á annað þúsund manns a.m.k. sem eru dottnir út af atvinnuleysisskrá á stuttum tíma, á einu ári í Covid, og það detta út 100 manns um hver mánaðamót. Það er fólkið sem við eigum að grípa núna.

Ég veit ekki hvort það er í þeirri ráðstöfun sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra var að kynna varðandi þessi 7.000 nýju störf, hvort sérstaklega er getið um hvernig aðstoða á þennan hóp, vegna þess að það er ekki nóg að segja bara við fólk: Þið getið sótt um. Við verðum að átta okkur á því að eftir áralangt atvinnuleysi eru komin upp gífurleg vandamál, alveg eins og hjá þeim sem eru á örorku. Þá eru mjög litlar líkur á því að viðkomandi geti bjargað sér sjálfur því að hann er eiginlega orðinn fastur í atvinnuleysinu. Og þegar hann er búinn að vera atvinnulaus í tvö ár og dettur svo út af skrá er niðurbrotið orðið algjört. Þess vegna verðum við að sjá til þess að aðstoða þessa einstaklinga og ná til þeirra, að þeim sé hjálpað, að þeim séu fundin störf við hæfi þannig að þeir geti virkilega komist inn í slík úrræði. Úrræðunum ætti helst að vera beint til þessara einstaklinga svo þeir geti nýtt sér þau vegna þess að þeir eiga og hafa þörf á því að komast þar inn. Í seinni ræðu minni kem ég inn á fleira.