151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[17:08]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ákaflega mikilvægt að fólk fái að hafa sína skoðun þó svo að ég sé ósammála henni, og þetta er dæmi um það. Það gleður mig að hv. þingmaður hafi komist niður úr stólnum til þess að geta flutt ræðu sína, en ég verð samt að gera nokkrar athugasemdir. Ég veit hvaða gagn þjóðkirkjan gerir ýmsum íbúum landsins. Ég er algjörlega sammála því að hún geri mikið gagn fyrir ákveðna landsmenn. Ég veit líka um menningarlegt og sögulegt mikilvægi þjóðkirkjunnar og er ekkert að rífast yfir því. Ég veit um þá þjónustu sem þjóðkirkjan veitir. En nú er ég, og tugir þúsunda annarra í þessu samfélagi, í þeim hópi sem kærir sig ekki um þá þjónustu sem verið er að veita. Það þýðir ekki að við viljum ekki að varðveita menningarminjar eða álíka. Við viljum flest algerlega gera það, held ég, en það eru til önnur verkfæri til að vernda menningarminjar en að viðhalda stofnun, sérstaklega þegar sú stofnun kostar okkur í rauninni mjög marga milljarða á ári, mig minnir einhvers staðar í kringum þrisvar sinnum fleiri milljarða en Ríkisútvarpið.

Þannig að ég hlýt að spyrja hv. þingmann, sem vill, held ég, losna við Ríkisútvarpið, að ég held, enda kannski svolítið mikið ójafnræði þar á ferð, og er sammála mér um að það sé ágætt að við afnemum einokunarréttindi ÁTVR á sölu áfengis: Hvers vegna talar þingmaðurinn fyrir því að viðhalda þessari tilteknu ríkisstofnun þegar það fækkar í þeim hópi landsmanna sem vill nýta sér þjónustu hennar? Af hverju vill hann ekki einkavæða hana líka? Af hverju einkavæðum við ekki þjóðkirkjuna?