151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu drengja í skólakerfinu.

489. mál
[18:03]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég væri til í að standa hér í allan dag og ræða þetta (IngS: Ég líka.) af því að þetta er mér mikið hjartans mál, eftir að hafa farið með fjögur börn í gegnum skólakerfið og er þó ekki búin. Auðvitað eru fjölmargar kenningar uppi en það sem mér svíður sárast er að þegar ég ræði þetta, eða þegar aðrir leyfa sér að ræða þetta, jafnvel miklir sérfræðingar á sínu sviði, er farið með þetta eins og það sé kynjastríð. En að sjálfsögðu er þetta ekki kynjastríð því að öll börn skipta okkur jafn miklu máli. Eins og ég segi eru margar kenningar þarna á bak við.

Hv. þingmaður spurði: Er þetta nýtt mál eða hefur þetta kannski alltaf verið svona? Árið 1975 var kynjahlutfall þeirra sem luku stúdentsprófi jafnt. Það eru næstum því 50 ár síðan, 45 ár síðan. Árið 2018 var hlutfallið 60% konur og 40% karlar. Árið 1973 voru 76% þeirra sem luku háskólaprófi karlmenn og þá var farið í sérstakt átak af því að allir voru sammála um að ótækt væri að það hallaði svo mikið á konur. Þegar kemur að menntun skiptir jafnrétti svo miklu máli af því að það eykur líka félagslega færni. Það er ekki bara að einhver sé góður á bókina heldur er líka svo margt annað. Árið 1985, 12 árum seinna, var hlutfall kynjanna sem lauk háskóla orðið jafnt. Allir fögnuðu því. En í dag, hátt í 40 árum síðar, er hlutfallið orðið þannig að 34% þeirra sem ljúka háskólaprófi eru karlmenn. Við erum því komin algjörlega á hinn veginn. Ég held að þetta sé þróun sem átt hefur sér stað bara undanfarna áratugi. Ég veit ekki hvað það er sem veldur þessu, ég átta mig ekki á því, enda þyrfti þá kannski ekki fjögur ár til að rannsaka það eins og við leggjum til.