151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga o.fl.

554. mál
[20:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um frumvarp Flokks fólksins um breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, lögum um neytendalán og lögum um fasteignalán til neytenda (fjárhagsupplýsingar um einstaklinga).

Oft var þörf en nú er nauðsyn. Við gerum okkur grein fyrir því hvernig staða margra einstaklinga og jafnvel para er á leigumarkaði á Íslandi. Leigumarkaðurinn hefur verið þannig að fólk má þakka fyrir að fá sæmilega stúdíóíbúð eða eins eða tveggja herbergja íbúð á um 200.000 kr. á mánuði. Síðan borga sumir 250.000 kr. ef þeir eru komnir upp í þrjú herbergi og jafnvel yfir 300.000 kr. Einstaklingar sem eru á leigumarkaði eru þar vegna þess að þeir hafa margir ekki möguleika á að kaupa. En hvað myndi ske ef þessir einstaklingar gætu keypt íbúð, segjum bara íbúð sem þeir leigja á 250.000–300.000 kr. á mánuði? Það er mjög einfalt. Þá myndi greiðslan hjá þeim falla niður í 100.000 kr. Að vísu kæmu fasteignagjöld ofan á það og eitthvað annað en greiðslubyrðin yrði alltaf helmingi minni. Bara það eitt ætti að vera nóg til þess að þær bankastofnanir sem eru með þessa einstaklinga í viðskiptum, sem eru kannski búnir að vera í viðskiptum í nokkur ár og hafa staðið sig vel, hugsi sig tvisvar um og aðstoði þá eftir bestu getu og hjálpi þeim að eignast íbúð. En til þess að fá aðstoð þurfa þeir að standast greiðslumat og því miður sýnir greiðslumatið oft ekki þá stöðu sem þeir eru í, kannski búnir að vera borga á leigumarkaði í mörg ár. Það gefur til kynna að þó að þeir hafi getað borgað 200.000 kr. leigu í nokkur ár eigi þeir ekki möguleika á að kaupa fyrir 100.000 kr. á mánuði.

Við vitum að margt af þessu unga fólki er líka komið á vanskilaskrá vegna þess að það hefur kannski verið með smálán eða hefur einhverra annarra hluta vegna lent á þeirri ömurlegu skrá og er fast þar í fjögur ár og kannski, eins og hefur komið fram hér, vegna ólöglegra smálána. Það er auðvitað alveg með ólíkindum að það skuli vera hægt, að það skuli enn viðgangast að fólk sé á vanskilaskrá jafnvel í fjögur ár, jafnvel lengur, vegna ólöglegra lána. Það er eitthvað að hjá okkur í þessu kerfi. Við vitum að í bankahruninu, árið 2008 þegar bankahrunið varð, lenti fullt af fólki á vanskilaskrá sem hafði kannski lent í því að geta ekki staðið við skuldbindingar sínar, bæði vegna þess að gengislánin stökkbreyttust og líka út af verðbólgunni. Greiðslubyrðin margfaldaðist. Það merkilegasta við þetta var að fólk lenti í því að í ljós kom að aldrei hafði verið gert greiðslumat, sem bar samkvæmt lögum, og þar af leiðandi var ekki hægt að standa fast á því að ganga að fólki með innheimtu eins og gert var, hvað þá að setja það á vanskilaskrá. Og þeir sem lentu á vanskilaskrá út af þessum ólöglegu lánum og voru ekki með greiðslumat lentu í stökustu vandræðum með að koma sér út úr því.

Þetta segir okkur að þetta er slæmt kerfi, þetta er vont kerfi sem við erum með og á engan hátt mannúðlegt að því leyti að auðvelda fólki að eignast eigin íbúð, fólki sem vill og getur og hefur sýnt fram á að geta gert það en fær það ekki. Creditinfo er eitt af þeim fyrirtækjum sem gerir þetta greiðslumat og þeir eru að selja og græða á persónuupplýsingum um fólk, upplýsingum um greiðslugetu fólks. Það kom fram hjá hv. þm. Ingu Sæland að þeir væru einnig með dómasafn og það er annar ljótur hængur á svona sölustarfsemi, að selja t.d. sjúkraskrárupplýsingar sem eru í dómum, jafnvel dómum Hæstaréttar, mjög viðkvæmar sjúkraupplýsingar. Þær ganga kaupum og sölum, meira að segja persónugreinanlegar upplýsingar, með kennitölu, heimilisfang og öllu. Það er ömurlegt. Ég get bara staðfest það vegna þess að ég hef sjálfur lent í því og fengið að sjá það svart á hvítu. Mér var bent á það og sýnt hvernig þetta væri, bara vegna slysamáls hjá mér.

Þetta er söluvara og það er ömurlegt, alveg jafn ömurlegt og í þessu tilfelli. Það á auðvitað ekki að eiga sér stað að við séum á þeim stað að í fyrsta lagi sé hægt að kaupa og selja svona upplýsingar og í öðru lagi að við skulum vera búin að gefa leyfi fyrir svona starfsemi. Við eigum að sjá sóma okkar í að loka þessu. Við eigum að sjá sóma okkar í að virða persónuvernd. Og kannski er það ömurlegasta við þetta, t.d. í sambandi við sjúkraskrárupplýsingarnar, og alveg það furðulegasta að dómsmálaráðherra bendir á Persónuvernd, Persónuvernd bendir á dómsmálaráðherra og enginn gerir neitt. Samt er það alveg skýrt, algjörlega tært, að þetta er ólöglegt. Ég held að nákvæmlega það sama gildi um þessar fjármálaupplýsingar, nákvæmlega það sama. Við erum með banka, fólk er í viðskiptum við banka og fólk á að geta treyst því að bankinn hafi upplýsingar um það hvernig staða þess í fjármálum er og hvort það er ábyrgt. Ef viðkomandi einstaklingar eru búnir að sýna fram á það í bankanum að þeir séu traustir viðskiptamenn þá eru þeir kannski sendir í greiðslumat hjá Creditinfo, eins og kom fram hjá við hv. þm. Ingu Sæland. Þar getur kannski dúkkað upp, hvað? 55 milljónir eða eitthvað annað. Það er bara: Heyrðu, þú skuldar og þá þarft þú að sanna sakleysi þitt. Viðkomandi þarf ekki að sanna að maður skuldi, nei, heldur þarf maður að fara og leita og sanna sakleysi sitt. Þarna er búið að snúa öllu á hvolf.

Það er alveg óskiljanlegt að við skulum vera á þessum stað. Nú erum við með ríkisbanka. Af hverju beitum við ekki ríkisbönkum fyrir okkur og látum þá klippa á þennan streng? Að ríkisbankarnir okkar verði, eins og hefur verið kallað, samfélagsbankar, að þeir hugsi um fólkið og taki það að sér en séu ekki að láta einstaklinga borga helling til þriðja aðila sem er kannski með rangar upplýsingar frá viðkomandi banka. Ég veit ekki, þetta er farið að snúast algerlega á hvolf ef maður fer að hugsa um það, að það skuli vera hægt að fá upplýsingar frá banka sem eru rangar, að maður fái tilboð frá þriðja aðila og borgi honum. Í sjálfu sér er maður að borga honum fyrir að fá upplýsingar og hann er með rangar upplýsingar sem maður þarf síðan sjálfur að leiðrétta.

Ég er alveg sannfærður um að ef við færum með þetta fyrir dómstóla eða eitthvað í þeim dúr yrði slegið á puttana. Það er alveg á hreinu. Við eigum að sjá sóma okkar í því að taka til í þessum málum. Við eigum að búa til kerfi, mannúðlegt kerfi og númer eitt, tvö og þrjú eigum við að sjá til að ekki sé verið að selja svona viðkvæmar upplýsingar, hvort sem það eru sjúkraupplýsingar eða fjármálaupplýsingar um fólk. Þetta á ekki að vera söluvara, aldrei. Með því að samþykkja þetta frumvarp sjáum við til þess að svo verði ekki. Flokkur fólksins segir: Fólkið fyrst, síðan kemur allt hitt. En alls ekki, það kemur alls ekki til greina, og við eigum að sjá til þess, að einhver sé að selja og græða, hvort sem það er á sjúkraupplýsingum eða fjármálaupplýsingum einstaklinga. Það er ekki söluvara á markaði og á aldrei að vera.