151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að ræða hér um landsbyggðirnar og stöðu þeirra. Við erum allt of gjörn á að ræða um þær í samhengi við eitthvað leiðinlegt og neikvætt, eins og fólksfækkun og erfiða stöðu atvinnulífs. Staðreyndin er hins vegar, herra forseti, að í raun hafa landsbyggðirnar aldrei staðið jafn sterkt og nú. Dr. Þóroddur Bjarnason benti nýverið á þá staðreynd í grein sinni „Byggðaröskun fyrir byrjendur“ í vefritinu Úr vör. Þar setti Þóroddur þéttbýlishugtakið í nokkuð skemmtilegt samhengi, þ.e. hvað telst vera þéttbýli, en það er nefnilega ansi ólíkt eftir löndum. Þannig myndi t.d. höfuðborgarsvæðið allt ekki teljast vera þéttbýli í Kína.

Herra forseti. Við höfum teiknað upp þá mynd að vöxtur höfuðborgarsvæðisins hafi verið öðrum landshlutum dýrkeyptur og í raun sé Ísland orðið að borgríki með hnignandi dreifbýli. Staðan er hins vegar sú að þéttbýli landsbyggðanna hefur einnig vaxið undanfarna áratugi, og þá er ég ekki eingöngu að tala um Hvítá til Hvítár-svæðið. Tækifærin liggja í því fyrir Ísland að gæta að því að byggja allt landið og við þurfum að gera það markvisst. Við þurfum að tryggja samgöngur um allt land. Við þurfum að opna fleiri gáttir inn í landið. Við þurfum fyrst og fremst aukinn jöfnuð til búsetu á landinu. Ég hef nefnt það hér áður að við þurfum að vera duglegri við að setja upp byggðagleraugun í öllum störfum okkar og eins þurfum að taka ákveðnari skref í að tryggja aðkomu íbúa á landsbyggðunum að ákvarðanatöku, eins og t.d. að skilyrða að í stjórnum opinberra fyrirtækja og stofnanna séu alltaf fulltrúar utan höfuðborgarsvæðisins.

Herra forseti. En fyrst og fremst vil ég skora á þingheim, skora á fjárlaganefnd sérstaklega að hafa byggðagleraugun uppi í tengslum við vinnu við komandi fjármálaáætlun, því að það skiptir máli fyrir framtíð þjóðarinnar.