151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:23]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir skýrslugjöf ráðherra og það er ánægjulegt að heyra að hæstv. heilbrigðisráðherra líti svo á að það verði búið að bólusetja um 43.000 manns fyrir lok þessa mánaðar, ef ég skildi orð hennar rétt í skýrslugjöfinni. Því ber svo sannarlega að fagna og breytir stöðinni gífurlega út frá lýðheilsusjónarmiðum, geri ég ráð fyrir. Annar hv. þingmaður kom inn á að það er samt sem áður mikilvægt að hafa í huga og heiðri mannréttindi og takmarkanir á þeim þó að heimsfaraldur ríði yfir. Svo kemur að því að heimurinn færist aftur í svipað horf og áður og þá er eins gott að þessum mannréttindum sé skilað aftur til borgaranna.

Í Skoðun í Fréttablaðinu í dag talar Aðalheiður Ámundadóttir einmitt um þetta mál og segir, með leyfi forseta:

„Eðlilegt er að álykta að fólk sé ánægt með hvort tveggja; gott gengi í baráttunni við faraldurinn og hófsamar aðgerðir.

Það breytir ekki því að umburðarlyndið gagnvart þeirri fordæmalausu frelsisskerðingu borgaranna sem gilt hefur í heilt ár er uggvænlega mikið og eðlilegt að fylgismenn mannréttinda hafi af því töluverðar áhyggjur, enda hefðu fáir trúað því fyrir ári að þjóðin myndi taka slíkum mannréttindaskerðingum svo fagnandi sem raun ber vitni.“

En tölum um sóttvarnaaðgerðir. Ég ætla að vinda mér í spurningarnar til hæstv. heilbrigðisráðherra: Er metinn árangur af mismunandi sóttvarnaaðgerðum, þ.e. af því að hefta útbreiðslu veirunnar annars vegar og af því að minnka skaðsemi hennar hins vegar? Ef svo er, hvernig fer það mat fram? Hvaða ályktanir má draga af fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum um árangur einstakra aðgerða? Hvaða áhrif hafa upplýsingar um árangur (Forseti hringir.) einstakra sóttvarnaaðgerða haft á ákvarðanir um frekari aðgerðir? Hversu mikið er horft til fenginnar reynslu þegar teknar eru ákvarðanir um nýjar aðgerðir?