151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í spurningu hv. þingmanns þá er þetta samspil þarna á milli vegna þess að þegar öllu er á botninn hvolft er það dýrmætasta sem við höfum hér frá degi til dags árangurinn innan lands og allar ákvarðanir okkar og ráðstafanir verða að taka mið af því að við teflum ekki þeim árangri í tvísýnu. Þetta þarf samt sem áður allt saman að endurspeglast af meðalhófi og yfirvegun o.s.frv. Þess vegna vil ég árétta að ákvörðunin sem tekin var í gær var í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis um að vottorð um bólusetningar væru tekin gild á landamærum og vottorð um sýkingar, þ.e. ef fólk hefur þegar fengið Covid getur það komið. Þessi vottorð hafa verið í gildi á Íslandi síðan 21. janúar þannig að breytingin er sú að það gildir ekki bara um fólk innan EES heldur um alla. Ef þeir eru með vottorð af þessu tagi þá geta þeir komið inn til landsins. En vottorðin þurfa að vera þannig að þau myndu standast skoðun innan EES, þannig að það eru ekki bara hvaða vottorð sem er heldur þurfa þau að uppfylla mjög strangar kröfur og ströng skilyrði.

Litakóðunarkerfi Sóttvarnastofnunar Evrópu er sett upp með tilteknum reiknireglum sem segja til um það hver dreifing smitsins er á viðkomandi svæði. Þá kynni einhverjum að detta í hug: Já, en ef við hættum bara að prófa, komum við þá ekki bara öll út með grænt land? En það er ekki þannig vegna þess að ef við erum að prófa mjög fáa og prófum ekki nægilegan massa af fólki þá telst landið grátt og virkar eins og dökkrautt í þessum kerfum. (Forseti hringir.) Þannig að skilyrðið er það að maður sé með og þar með er hægt að reikna út u.þ.b. hvar landið er statt og ráðstafanir taka mið af því.