151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[15:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Þetta frumvarp er nokkuð mikið að vöxtum og líkt og hæstv. dómsmálaráðherra fór yfir í framsöguræðu sinni fyrr í dag þá er það lagt fram aftur en í nokkuð breyttri mynd. Mig langar í upphafi máls míns að taka það fram að bæði ég og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gerðum fyrirvara við þetta frumvarp. Við teljum að það þurfi að skoða heildstætt áhrifin af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu og að sjónarmið um hagkvæmni og skilvirkni kerfisins megi ekki vera á kostnað mannúðar- og réttlætissjónarmiða almennt né heldur þegar litið er til stöðu fólks sem tilheyrir viðkvæmum hópum. Þetta finnst mér mikilvægt að segja hér í upphafi máls míns því að frumvarpið hefur tekið breytingum. Þar munar kannski mestu breyting sem gerð er í 12. gr. frumvarpsins, þar sem settur er inn d-liður sem fjallar um að hægt sé að veita fólki dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þó svo að það sé komið með hæli í öðru landi. Þetta tel ég að skipti gríðarlega miklu máli og að hv. allsherjar- og menntamálanefnd þurfi að skoða það mjög vel í meðferð sinni.

Það eru ýmis fleiri atriði sem þurfa að skoðast í nefnd. Við vitum að þegar við höfum fjallað um önnur mál sem tengjast breytingum á lögum um útlendinga er mjög margt sem kemur upp og mjög margt sem þarf að fara vel yfir með umsagnaraðilum.

Eitt atriði sem mig langar að nefna, sem ég held að sé í grunninn mjög jákvæð breyting, er tillaga um fjölgun í kærunefnd útlendingamála. Það held ég að sé út af fyrir sig mjög gott og nauðsynlegt að leggja til. Hins vegar tel ég mikilvægt að nefndin skoði mjög vel umgjörðina um það, hvernig það er gert og hvernig það er sett fram. Ég ætla ekki að hafa á því skoðun beinlínis hér við 1. umr. hvort það þurfi að gera þetta með öðrum hætti en mér finnst bara mikilvægt að þetta sé eitt af því sem nefndin skoði mjög vel, þ.e. hvernig og hverjir tilnefni í kærunefndina.

Það er verið að gera jákvæða breytingu í þessu frumvarpi þegar kemur að atvinnuleyfum. En mér finnst þau þó dálítið bundin við fólk með sérfræðimenntun. Það er auðvitað gott og raunar mikilvægt að fólk með sérfræðiþekkingu geti komið hingað til starfa. En ég tel að við þurfum að skoða málin hér í víðara samhengi, hvort við gerum það með breytingu á þessu frumvarpi eða hvort það þurfi lengra samtal, ég veit það ekki alveg. En ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að við þurfum að huga að því að fólk utan hins Evrópska efnahagssvæðis geti komið hingað til dvalar og til að stunda atvinnu.

Svo tel ég að það sé mjög jákvætt og öllum til hægðarauka sem hér er lagt til, þ.e. að fólk sem hefur fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið verði undanskilið kröfu um tímabundið atvinnuleyfi. Ég held að við þurfum að skoða það í tengslum við þær breytingar sem ég nefndi áðan í 12. gr. frumvarpsins því að þar erum við auðvitað að tala um fólk sem myndi, verði þetta að lögum, hugsanlega fá leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þetta er atriði sem nefndin þarf að skoða mjög vel því að ég held að þarna sé klárlega staður í kerfinu sem þarf að skoða, við viljum, held ég, öll að fólk sem á annað borð er komið hingað og er komið með leyfi til að dvelja á landinu geti jafnframt stundað hér atvinnu án þess að það þurfi að fara í gegnum flókið kerfi til að gera það.

Herra forseti. Líkt og ég sagði í upphafi máls míns þá tel ég að það þurfi að fara mjög gaumgæfilega yfir frumvarpið og skoða vel hvernig þær breytingar sem hér eru lagðar til muni koma út og einnig hvernig þær breytingar sem lagðar eru til og eru nýjar, til viðbótar við hugmyndir að eldri breytingum sem við höfum áður séð, komi til með að spila saman. Það er mikilvægt að allsherjar- og menntamálanefnd vandi mjög til verka, fari yfir málið með gagnrýnum augum og að við missum aldrei sjónar á því þegar kemur að þeim parti útlendingalaga sem snýr að flóttafólki og hælisleitendum að þar eigi mannúðar- og réttlætissjónarmið að vera það sem við höfum fókusinn á.