151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:09]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú bíður það okkar, mín og hv. þingmanns og hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, sem gerði fyrirvara með hv. þingmanni, að vinna þetta mál áfram og skoða það í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Þar munum við reyna að leggja fyrir sjálf okkur og fyrir gesti okkar ákveðnar spurningar og fá svar við þeim og á grundvelli þeirra svara munum við síðan væntanlega taka afstöðu til málsins. Ég vænti góðs af þeirri vinnu og hlakka til hennar.

Þá þurfum við, held ég, að taka afstöðu til einnar grundvallarspurningar og hún er þessi: Er líklegt að það verði áfram svo, eins og við þekkjum dæmi um, að fólk sem hingað leitar, nauðleitarfólk, verði sent út á guð og gaddinn aftur til svokallaðra öruggra ríkja, þeirra þriggja ríkja sem þráfaldlega hafa verið nefnd hér; Grikklands, Ungverjalands og Ítalíu? Er líklegt að þetta fólk verði, eftir að þetta frumvarp verður að lögum, áfram sent til hinna svokölluðu öruggu ríkja eða munu þessi lög breyta einhverju þar um? Og ég minni á að við höfum í núverandi lögum heimildir til að taka ákvarðanir af mannúðarástæðum.