félög til almannaheilla.
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):
Herra forseti. Hér er í raun um að ræða sama frumvarp nema að sú breyting er gerð að íþróttafélög eru undanþegin nema þau kjósi sjálf að vera með. Ef þau setja í samþykktir sínar að þau falli hér undir þá gera þau það, en annars hafa þau heimild til að vera utan við. Það er breyting sem ég ákvað að leggja til í ljósi þessara samskipta, til að koma til móts við ÍSÍ, koma til móts við þá starfsemi. Þetta er niðurstaðan úr því samtali og má segja það að sé ákveðin millileið. Það er einfaldlega undir íþróttahreyfingunni komið hvort félögin vilja vera með og þau hafa þá það val. Ráðuneytið átti allmarga fundi með ÍSÍ í ljósi síðustu umsagna sambandsins.
Svo er kannski spurning um samspilið við frumvarp sem fjármálaráðherra lagði fram um ívilnanir varðandi þriðja geirann, það samspil er líka undir ÍSÍ komið. Þar eru ákveðnar kröfur og ef það er vilji innan hreyfingarinnar til að nýta þær ívilnanir þá eru þær kröfur eins og þær eru og ÍSÍ hagar sér eftir því. En þetta frumvarp er bara óbreytt fyrir utan það að ÍSÍ og félög þar undir ráða því sjálf hvort þau eru með. Þau þurfa ekki að gera það en geta sett það í samþykktir sínar, kjósi þau að vera með þá geta þau það. ÍSÍ var upplýst um þessa lendingu og gerði ekki sérstakar athugasemdir við hana. Ég vonast til þess að þetta mál eins og það er núna fái sína þinglegu meðferð og verði afgreitt.