151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

brottfall laga um vísitölu byggingarkostnaðar.

605. mál
[18:55]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um vísitölu byggingarkostnaðar, nr. 42/1987.

Þetta frumvarp er samið í forsætisráðuneyti í samvinnu við Hagstofu Íslands. Í því felst að sérlög um vísitölu byggingarkostnaðar, nr. 42/1987, eru felld úr gildi enda eru lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/2007, talin nægjanleg. Jafnframt eru lagðar til breytingar á lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006, sem vísa í þau lög sem lagt er til að felld verði úr gildi.

Forsaga málsins er sú að Samtök iðnaðarins sendu erindi til forsætisráðuneytisins og óskuðu eftir að vísitala byggingarkostnaðar yrði tekin til endurskoðunar og nánar tiltekið miðuð við byggingarkostnað án virðisaukaskatts. Í erindinu segir að breytingar á endurgreiðsluhlutfalli vegna átaksins Allir vinna valdi sveiflum á vísitölunni sem endurspegli ekki raunkostnað verksala og hafi þar af leiðandi óeðlileg áhrif á samninga sem eru tengdir við vísitöluna. Lagt var til að virðisaukaskattur yrði tekinn út úr vísitölunni.

Af hálfu Hagstofu Íslands hefur verið tekið undir þau sjónarmið að betur færi á því að vísitala byggingarkostnaðar mældi ekki verð með virðisaukaskatti þar sem fyrirkomulag við húsbyggingar hefur breyst með árunum og færst frá einstaklingsframtaki til byggingarfyrirtækja. Fyrirtækin búa við fyrirkomulag inn- og útsköttunar og hafa því ekki tilkall til endurgreiðslna á virðisaukaskatti.

Þá telur Hagstofa Íslands jafnframt að vegna tilkomu laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/2007, þurfi í raun ekki lengur sérlög um vísitölu byggingarkostnaðar auk þess sem forsendur þeirra séu ekki lengur fyrir hendi.

Meginmarkmið með því að leggja til brottfall laganna er að Hagstofu Íslands verði gert kleift að uppfæra aðferðir við mælingu og útreikning vísitölunnar í samræmi við alþjóðlega þróun aðferðafræðinnar. Hagstofa Íslands getur þá m.a. breytt aðferð hvað varðar virðisaukaskatt við mælingu vísitölunnar svo að hún verði í samræmi við framkvæmd annars staðar á Norðurlöndum en þar er grundvöllur fyrir verðlagi byggingarkostnaðar mældur án virðisaukaskatts.

Sérlög um vísitölu byggingarkostnaðar voru sett 1987 en mikilvægt þótti á þeim tíma að efla lagalegan ramma vísitölunnar vegna notkunar hennar í mati lánskjaravísitölu sem gefin var út á árunum 1979–1995. Lögin höfðu mikilvægt gildi fyrir Hagstofu Íslands þegar þau voru sett og tryggðu stofnuninni m.a. aðgengi að sérþekkingu, þar á meðal úr byggingariðnaði, sem var nauðsynleg til að tryggja gæði og trúverðugleika byggingarvísitölu, auk þess að skera úr um meðhöndlun söluskatts og síðar virðisaukaskatts í samræmi við það skattumhverfi sem þá var fyrir hendi.

Frú forseti. Þegar lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð tóku gildi árið 2007 var settur rammi fyrir starfsemi stofnunarinnar sem getur leyst af hólmi þann hluta sérlaganna sem tryggir Hagstofu Íslands aðgengi að upplýsingum og sérþekkingu. Enn fremur má líta til þess að hlutverki vísitölu byggingarkostnaðar sem hluta af mati lánskjaravísitölu lauk eftir 1995 þegar lánskjaravísitalan var lögð niður. Þannig að þegar málið var tekið til skoðunar í forsætisráðuneytinu töldum við vera skýr rök fyrir því að lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð væru eftirleiðis fullnægjandi rammi fyrir útreikning vísitölu byggingarkostnaðar. Jafnframt vil ég nefna að byggingarvísitölur annars staðar á Norðurlöndum eru mældar og gefnar út í samræmi við þarlend hagstofulög.

Frú forseti. Við samningu þessa frumvarps var haft samráð og óskað umsagna frá Hagstofu Íslands, Samtökum iðnaðarins, Framkvæmdasýslu ríkisins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands. Auk þess voru áform um lagasetningu og drög að frumvarpi birt í samráðsgátt. Niðurstaða samráðsins var að ekkert væri því til fyrirstöðu að fella niður sérlögin enda mun Hagstofan áfram reikna og birta vísitölu byggingarkostnaðar.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.